VR stefnir Fjármálaeftirlitinu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir markmiðið með því að …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir markmiðið með því að stefna FME að fá úrskurði þess hnekkt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fulltrúar VR afhentu Héraðsdómi Reykjavíkur stefnu á hendur Fjármálaeftirlitinu (FME) í dag. Stjórn VR samþykkti að stefna stofnuninni fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þetta staðfestir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is.

„Markmiðið er fyrst og fremst að fá þennan úrskurð FME dæmdan ógildan,“ segir Ragnar Þór og vísar til þess að FME lítur svo á að ákvörðun um afturköllunina sé ekki gild þar sem hún hafi ekki, að mati stofnunarinnar, verið tekin af stjórn VR eins og samþykktir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gera ráð fyrir.

Fulltrúaráð VR ákvað 20. júní að afturkalla umboð stjórnarmanna sem félagið tilnefnir í stjórn lífeyrissjóðsins.

Ragnar Þór segir stjórnina hafa tekið ákvörðun um afturköllun umboðs stjórnarmannanna. „Við töldum okkur einfaldlega – með því að vísa ákvörðun til fulltrúaráðs á sínum tíma – vera að sýna vandaðri vinnubrögð og málsmeðferð heldur en þörf var á, því málið var samþykkt innan stjórnar líka með fyrirvara um samþykki fulltrúaráðs sem stjórnin á öll sæti í.“

Krefjast vandaðra vinnubragða

Formaðurinn segir VR með stefnunni vera að gera „þá kröfu að eftirlitsaðilar stundi þau faglegu vinnubrögð sem þeir segja öðrum að sýna.“ Hann segir jafnframt vinnubrögð FME „ekki boðleg“.

„Ef við stígum ekki niður fæti þá er alltaf hætta á því að slík vinnubrögð verði viðhöfð áfram, þannig að það er mikilvægt að við sýnum eftirlitsaðilum – í þessu tilfelli FME – nauðsynlegt aðhald og gerum eðlilega kröfu um að faglegum vinnubrögðum sé beitt þegar verið er að stunda svona inngrip í mál sem þetta,“ útskýrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert