Icelandair fullnýtir ekki flugmenn sína og flugfreyjur, að mati formanns Félags íslenskra atvinnuflugmanna og formanns Flugfreyjufélags Íslands. Félaginu sé heimilt að nýta starfsfólk sitt betur en það geri það einfaldlega ekki.
Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, sagði nýverið að flugmenn og flugfreyjur félagsins skiluðu of fáum vinnustundum miðað við keppinauta fyrirtækisins.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, tekur undir ummæli Jóns og segir tækifæri fólgin í betri nýtingu starfsfólks. Mögulega þurfi að breyta kjarasamningum vegna þess.
Formenn stéttarfélaganna telja það þó ekki nauðsynlegt enda heimild til betri nýtingar nú þegar fyrir hendi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hvað varðar MAX-þotur Icelandair sem voru kyrrsettar í marsmánuði samsinnir Bogi því að möguleg framleiðslustöðvun á MAX 737-þotum Boeing myndi koma sér illa fyrir Icelandair, sem hafði ætlað að bæta fimm slíkum við flota flugfélagsins á næsta ári.