Druslur landsins söfnuðust saman víða um land í dag og gengu gegn ofbeldi. Druslugangan er gengin til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisofbeldis og skila skömm þolenda þangað sem hún á heima, hjá gerendum.
Í Reykjavík var hist við Hallgrímskirkju klukkan tvö og þaðan gengið niður á Austurvöll. Þúsundir tóku þátt í göngunni og hlýddu á ávörp Sigrúnar Bragadóttir og Aldísar Schram. Þá fluttu tónlistarkonurnar Salóme Katrín, Kría og Ingileif tónlist og plötusnúðurinn DJ Dóra Júlía tróð upp.
Druslugangan var fyrst gengin sumarið 2011, en hún á rætur sínar að rekja til Kanada þar sem fyrsta gangan hafði verið gengin nokkrum mánuðum fyrr. Kveikjan að göngunni voru ummæli kanadísks lögregluþjóns sem lagði til að konur myndu „hætta að klæða sig eins og druslur“ til að komast hjá því að vera nauðgað.
Síðan þá hefur druslugangan breiðst út um allan heim og gangan hér á landi sömuleiðis stækkað ár frá ári. Ljósmyndari mbl.is var í miðbæ Reykjavíkur og fangaði stemninguna á filmu.