Tveir göngumenn í Fljótavík sem sendu frá sér neyðarboð eru fundnir en unnið er að því að komast til þeirra. Þetta staðfestir Landhelgisgæslan í samtali við mbl.is, en varðskip gæslunnar sem var í Bolungarvík var sent af stað ásamt björgunarskipinu Gísla Jóns.
Í samtali við mbl.is segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að vegna veðurs og öldugangs hafi gengið erfiðlega að komast í land þar sem mennirnir eru og varð því að fara í land hinum megin í víkinni. Hann segir það taka nokkurn tíma að komast að þeim.
Varðskip Landhelgisgæslunnar er einnig komið á staðinn og hefur sent hóp í land.
Göngumennirnir sendu frá sér neyðarboð upp úr níu í morgun og er ekki er vitað um ástand þeirra eða hvert tilefni neyðarboðanna er, að sögn Davíðs Más.
Vísir sagði fyrst frá.