Harðstjórar og heimsfrægir lifna við

Urban Gunnarsson, hagleiksmaður við Drottningargötuna í Stokkhólmi
Urban Gunnarsson, hagleiksmaður við Drottningargötuna í Stokkhólmi Morgunblaðið/Stefán E. Stefánsson

Í meira en hálfa öld hefur Urban Gunnarsson mundað hnífinn og með öruggum handtökum galdrað fram heimsþekktar persónur, þjóðarleiðtoga, harðstjóra og heiðursmenn. Á verkstæði sínu við Drottningargötu í Stokkhólmi stendur hann vaktina og þangað inn slæðist heimafólk og ferðamenn. Heimamennirnir þekkja handverkið vel enda löngu orðið þekkt í Svíþjóð en ferðamennirnir reka oft augun í þekkt andlit í glugganum hjá Urban. Einna mesta eftirtekt þessa dagana vekur Donald Trump. Hann virðist alstaðar hrista upp í hlutunum. Það er þó annars umdeildur stjórnmálamaður sem slær Trump ref fyrir rass, jafnvel þótt hann sé látinn fyrir rúmri hálfri öld síðan.

Maó, Donald Trump (í tvítaki), Ronald Reagan, Benito Mussolini, Jóhannes …
Maó, Donald Trump (í tvítaki), Ronald Reagan, Benito Mussolini, Jóhannes Páll II, páfi og Winston Churchill stilla sér upp fyrir myndatöku.

Churchill skilur aðra eftir í rykinu

„Langvinsælasta fígúran er Churchill. Ég get ekki gert mér í hugarlund hversu marga slíka ég hef tálgað og selt en þeir skipta hundruðum. Hann er alltaf vinsæll og vekur alltaf mikla eftirtekt þegar fólk kemur í búðina. Og hann var orðinn það löngu áður en ég byrjaði að tálga,“ segir Urban en hann tók við verkstæðinu af föður sínum, Sven, sem hafði allt frá þriðja áratug síðustu aldar glætt viðarbúta lífi með því að færa þá í líki þekktra manna, jafnt sænskra stjórnmálamanna, konunga og forystumanna á heimssviðinu. Á þeim tíma voru það einkum Mussolini og Hitler en eftir að Churchill tók við sem flotamálaráðherra, sama dag og Bretar lýstu stríði á hendur Þjóðverjum, tók vegur hans að aukast og athygli fólks að beinast að honum í meira mæli en áður.

Urban hefur skorið út allmarga Íslendinga. Hér handleikur hann Halldór …
Urban hefur skorið út allmarga Íslendinga. Hér handleikur hann Halldór Kiljan Laxness. Í forgrunni er Vigdís Finnbogadóttir, þá Sigvaldi Kaldalóns læknir og tónskáld, bróðir hans Eggert Stefánsson, söngvari, sr. Sigurður Pálsson, vígslubiskup, hr. Sigurbjörn Einarsson, biskup yfir Íslandi og Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Íslendingar bætast í hópinn

Undanfarna áratugi hefur það komið fyrir stöku sinnum að Urban hefur fengið beiðni um að skera út Íslendinga. Það hefur hins vegar færst í vöxt á síðustu árum, einkum fyrir einstakan áhuga dr. Gunnlaugs A. Jónssonar prófessors við Háskóla Íslands á listaverkum úr smiðju hans. Nú er svo komið að þrettán Íslendingar skipa sess ásamt öðrum í umfangsmiklu höfundarverki Urbans. Nýjustu eintökin eru af Ólafi Thors, fyrrum forsætisráðherra og Haraldi Níelssyni, prófessor.

En safn dr. Gunnlaugs einskorðast ekki við íslenska „karla“ og fullyrðir Urban að prófessorinn eigi nú stærsta safn verka sinna. Það telur um 100 persónur.

Ítarlegt viðtal við Urban Gunnarsson er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins núna um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert