Flugmálayfirvöld hafa aflétt kyrrsetningu á GA8 Airvan-flugvélum, sem kyrrsettar voru fyrir tæpri viku vegna flugslyss í Umeå í Svíþjóð.
Fyrstu rannsóknir benda til þess að slysið megi ekki rekja til hönnunar- eða smíðagalla, heldur óskyldra atriða sem snerta hvorki flughæfi né öryggi flugvéla af þessari tegund, að því er fram kemur í tilkynningu frá íslenska flugfélaginu Circle Air á Akureyri, sem þurfti að kyrrsetja tvær vélar sínar af þessari tegund.
Félagið hefur því tekið flugvélarnar aftur í notkun. Voru áhrif kyrrsetningar lágmörkuð með margs konar aðgerðum og samvinnu við aðra flugrekendur. „Circle Air þakkar stuðning og skilning á þeirri stöðu sem upp kom og jákvæð viðbrögð viðskiptavina og farþega,“ segir m.a. í tilkynningu félagsins.