Senda þyrlu til Fljótavíkur

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið send af stað til Fljótavíkur.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið send af stað til Fljótavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið til Fljótavíkur á Vestfjörðum til þess að sækja göngumann með kviðverki. Þetta staðfestir Landhelgisgæslan í samtali við mbl.is. Erfitt yrði að koma göngumanninum um borð í björgunarskipið Gísla Jóns, að sögn Hall­dórs Óla Hjálm­ars­sonar, aðgerðar­stjóra björg­un­ar­sveit­ar á Ísaf­irði.

Þyrla gæslunnar var fyrst send af stað í átt að flugslysi á Haukadalsflugvelli, en var síðan snúið við.

Áhöfn björg­un­ar­skips­ins Gísla Jóns kom að göngu­mönn­un­um fyrr í dag og skoðaði þar annan þeirra, sem er með kvik­verki.

Öldugangur og veður varð til þess að áhöfn skipsins gekk í land hinum megin í víkinni og tók þó nokkurn tíma að komast að tveimur ferðamönnum sem sendu neyðarboð í morgun. Halldór Óli segir að það myndi taka talsverðan tíma að bera manninn að skipinu og var í kjölfarið ákveðið að óska eft­ir aðstoð þyrlu Land­helg­is­gæsl­unn­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert