Ákvörðunarvaldið sé ekki geymt í erlendum borgum

Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Arnar Þór Jónsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. mbl.is/RAX

Arnar Þór Jónsson héraðsdómari ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem fram kom að Íslendingar væru ekki í neinu „raforkusamfélagi með þjóðum sem búa handan við hafið. Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja.“

Hann sagði í ljósi þessa og annars sem fram kom í greininni að vandséð væri, „svo ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenskan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum sem höfðuð verða í kjölfarið.“

Arnar Þór segist einnig mótmæla því sjónarmiði að það  „væri íslenskum almenningi mjög til framdráttar að æðsta dómsvald og ákvörðunarvald í innanríkismálum Íslands sé, í trássi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, geymt í erlendum borgum.

Kröfur um slíkan valdflutning hljóma heldur ekki vel úr munni þeirra sem vilja stilla sér upp sem sérstökum málsvörum lýðræðis, lýðfrelsis og mannréttinda, þ.m.t. sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og þjóðar. Ég rita þessar línur til að andmæla því að Íslandi sé best borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist. Slíkt verður ekki réttlætt með vísan til þess að Íslendingar hafi kosið að „deila fullveldi sínu“ með öðrum þjóðum.“

Grein Arnars Þórs er í heild sinni hér að neðan:

Fullveldið skiptir máli

Innleiðing hins svonefnda þriðja orkupakka ESB (O3) hefur reynst ríkisstjórnarflokkunum þyngri í skauti en útlit var fyrir þegar tillaga til þingsályktunar um málið var lögð fram á Alþingi vorið 2019. Í ljósi frétta og vaxandi þunga í almennri umræðu um málið tel ég ekki ofmælt að ágreiningur um innleiðingu O3 sé að umbreytast í djúpstæða pólitíska krísu, sem skekur ekki aðeins ríkisstjórnarflokkana á grunninum heldur einnig flokka í stjórnarandstöðu.

Í því sem hér fer á eftir vil ég freista þess að bregða nánara ljósi á þann pólitíska landskjálfta sem O3 hefur valdið. Í stuttu máli tel ég að skýringin sé sú að O3 sé myndbirting mun stærra undirliggjandi vandamáls. Vandinn, eins og ég sé hann, er stjórnskipulegur. Ég tel m.ö.o. að rætur ágreiningsins um innleiðingu O3 liggi djúpt í réttarvitund almennings og stöðu Íslands gagnvart ESB á grunni EESsamstarfsins.

Það er ekkert feimnismál að segja eins og er, að í EESsamstarfinu hafa Íslendingar verið móttakendur reglna en ekki tekið þátt í mótun þeirra. Það er heldur ekkert ljótt að segja það hreint út, að slík staða er engu lýðræðisríki sæmandi til lengdar. Slík staða er heldur ekki í neinu samræmi við þann lagalega grunn sem lagður var að stofnun Alþingis árið 930 og mótað hefur lagahefð Íslendinga alla tíð, þrátt fyrir löng tímabil niðurlægingar, undirokunar og kúgunar.

Alþingi – og íslenska þjóðveldið – var reist á vilja manna til að eiga samfélag hver við annan á grundvelli laga sem þeir áttu saman; laga sem mótuð voru í sambúð þeirra út frá eigin reynslu, umhverfi og aðstæðum. Um þennan stórmerka viðburð, sem í raun má kallast heimssögulegur, hefur Sigurður Líndal ítarlega fjallað. Sjálfur stend ég í ævilangri þakkarskuld við hann sem kennara minn fyrir að hafa vakið hjá mér áhuga á þessari perlu sögunnar, þegar menn með ólíkan bakgrunn, í nýju landi, ákváðu að hafa lög hver við annan en ekki ólög.

Á þessum tíma voru lögin óskráð; arfur sem menn höfðu flutt með sér og í sameiningu aðlagað íslenskum aðstæðum. Lögin birtu viðleitni til að setja niður deilur sem óhjákvæmilega rísa í samskiptum manna á öllum tímum. Nánar byggðust þessi lög á venjum, siðareglum, hátternis og umgengnisreglum, trúarreglum, hefðum o.fl. Lög í þessum skilningi voru bæði undirstaða og lím í samfélagi manna. Í stuttu máli var litið á lög sem sammæli en ekki sem fyrirskipanir yfirvalda. M.ö.o. hvarflaði ekki að nokkrum manni að hann væri einfær um að setja lög eða breyta lögum.

Með tilkomu miðstýrðs lagasetningarvalds, fjær fólkinu sem við lögin á að búa, opnuðust áður óþekkt tækifæri fyrir valdagíruga menn. Samhliða því kristallaðist nauðsyn þess að dómstólar veittu löggjafanum aðhald, m.a. til að hindra hvers kyns misnotkun og misbeitingu valds. Hlutverk dómstóla er að gæta réttar manna gagnvart lögunum; skera úr um rétt þeirra og skyldur að lögum.

Í þessu samhengi blasir líka við að það er algjör öfugsnúningur á hlutverki löggjafa og dómstóla ef hinum síðarnefndu er ætlað að taka á sig nýtt hlutverk og fara að marka samfélagslega stefnu. Dómurum er ætlað það stjórnskipulega hlutverk að finna og beita lögum þess samfélags sem þeir þjóna til að verja rétt þeirra sem brotið hefur verið gegn. Þetta er mikilvægasta skylda dómara, en ekki að vera viljalaust handbendi ríkjandi valdhafa eða þeirra sem telja sig vera fulltrúa siðferðilegs meirihluta á hverjum tíma.

Mikilvægi síðastnefnds atriðis er ekki lítilfjörlegt í lýðræðislegu og stjórnskipulegu samhengi. Vilji menn bjóða sig fram til starfa á löggjafarþingi þá ber þeim að axla ábyrgð á því að semja lagatexta. Slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér að viðkomandi orði hugsanir sínar og setji þær fram með kjarnyrtum og skýrum hætti. Tillaga hans getur svo í framhaldinu orðið grunnur skoðanaskipta, breytingartillagna og að lokum atkvæðagreiðslu þar sem tekin er afstaða til þess hvort textinn eigi að öðlast lagagildi. Í þessu birtist mikilvægi lýðræðislegrar rökræðu og lýðræðið þjónar auðvitað mikilvægu hlutverki þegar kemur að því að kjósa handhafa löggjafarvalds. Þannig verður til virkt samspil og aðhald: Lögin móta samfélagið og samfélagið lögin. Þráðurinn þarna á milli er órofa. Kjósi menn að höggva á þennan þráð milli sín og laganna, milli laga og samfélags, milli samfélags og ríkisvalds, er vá fyrir dyrum. Þá skapast forsendur fyrir því að til verði alríki sem virðir ekkert af þessu; þar sem smáríki verða aðeins óvirkir áhorfendur.

Skilaboð alríkisins eru þau að menn eigi fremur að hlýða en að andæfa, því að í alríkinu kemur valdið ofan frá og niður en ekki öfugt. Þegar svo er komið hefur gjörbylting átt sér stað frá því sem áður var lýst. Í stað þess að reglur séu settar af fjölskyldum, í nábýli manna og mótist innan eins og sama samfélagsins, koma lögin frá yfirvaldi sem vill þröngva sér inn í hversdagslíf okkar, jafnvel hugsanir okkar. Nútímatækni gefur slíku miðstýrðu valdi nánast takmarkalausa möguleika á slíkri áleitni. Jafnvel einveldiskonungar fyrri alda blikna í samanburði. Í stað umhyggju í nærsamfélagi býr alríkið til stofnanir sem sýna okkur gerviumhyggju en krefja okkur um algjöra hollustu.

Þegar ríkisvald sýnir tilburði í þá átt að umbreytast í alríki eru margar ástæður fyrir því að viðvörunarbjöllur hringi. Yfirþjóðlegt lagasetningar, framkvæmda og dómsvald rýfur það samhengi sem hér hefur verið lýst milli laga og samfélags, rýrir lagalega arfleifð, lítur fram hjá hagsmunum þeirra sem standa næst vettvangi og vanvirðir í stuttu máli samhengi lýðræðishugsjónarinnar við réttarríkið. Slíkt er augljóslega á skjön við stjórnskipan Íslands.

Afleiðingarnar blasa við í málum eins og O3: Þingmenn hyggjast taka að sér að innleiða í íslenskan rétt reglur sem erlendir skriffinnar hafa samið út frá erlendum aðstæðum og erlendum hagsmunum; lögfræðingar taka að sér hlutverk einhvers konar spámanna og freista þess með kristalskúlum að segja fyrir um hvernig íslenskum hagsmunum muni reiða af við framkvæmd hinna erlendu reglna; löggjafarþing tekur hinar erlendu reglur ekki til efnislegrar umræðu og endurskoðunar en lætur sér nægja að leika hlutverk löggjafans.

Við slíkar aðstæður breytist Alþingi Íslendinga í kaffistofu þar sem fjallað er um hið smáa en ekki hið stóra og víðtæka; smámál eru gerð að stórmálum, en stórmál töluð niður og dulbúin sem smámál. Hreyfi menn andmælum er því svarað með að ákvarðanir um innleiðingu hafi „þegar verið teknar“ með þeim hætti að við „verðum að ganga frá þeim formlega“ til að þær öðlist gildi meðal þeirra þjóða sem í hlut eiga „ef við viljum áfram vera aðilar að EES“.

Á móti spyr stór hluti íslenskrar þjóðar hvað sé lýðræðislegt við það ferli sem hér um ræðir. Fyrir mitt leyti sé ég ekkert lýðræðislegt við það að maður í teinóttum jakkafötum rétti upp hönd til samþykktar á lokuðum fundi sameiginlegu EESnefndarinnar og málið eigi þar með að heita „lýðræðislega útkljáð“. Þetta er í mínum huga afskræming á lýðræðislegum rétti fullvalda þjóðar og mætti með réttu kallast lýðræðisblekking.

Íslendingar eru ekki í neinu raforkusamfélagi með þjóðum sem búa handan við hafið. Við höfum því ekki haft nein áhrif á eða aðkomu að reglum sem þar hafa verið samdar um raforku og flutninga raforku milli ríkja. Í ljósi alls framanritaðs er vandséð, svo ekki sé meira sagt, hvers vegna við eigum að innleiða þessar reglur í íslenskan rétt og veikja auk þess um leið stöðu okkar í hugsanlegum samningsbrotamálum sem höfðuð verða í kjölfarið.

Þótt margt megi vafalaust finna lýðveldinu Íslandi til foráttu vil ég með vísan til framangreindra atriða mótmæla því sjónarmiði að það væri íslenskum almenningi mjög til framdráttar að æðsta dómsvald og ákvörðunarvald í innanríkismálum Íslands sé, í trássi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, geymt í erlendum borgum. Kröfur um slíkan valdflutning hljóma heldur ekki vel úr munni þeirra sem vilja stilla sér upp sem sérstökum málsvörum lýðræðis, lýðfrelsis og mannréttinda, þ.m.t. sjálfsákvörðunarréttar einstaklinga og þjóðar. Ég rita þessar línur til að andmæla því að Íslandi sé best borgið sem einhvers konar léni ESB eða MDE sem lénsherrar, ólýðræðislega valdir, siði til og skipi fyrir eftir hentugleikum án þess að Íslendingar sjálfir fái þar rönd við reist. Slíkt verður ekki réttlætt með vísan til þess að Íslendingar hafi kosið að „deila fullveldi sínu“ með öðrum þjóðum.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert