Fregnir af andláti sumars stórlega ýktar

Sólblómin virðast í það minnsta njóta sumarsins.
Sólblómin virðast í það minnsta njóta sumarsins. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fregnir af andláti sumarsins eru stórlega ýktar, ef marka má Óla Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðing á Veðurstofunni. Aðspurður segist hann ekki taka undir auglýsingu Icelandair, þar sem því er haldið fram að sumarið hafi toppað í júní og landinn er hvattur til að kaupa sér miða út.

„Sumarið hjá mér byrjar í ágúst,“ segir Óli og bætir við að hlýir síðsumarsdagar þegar sjór hafi hlýnað og hafgolan sé nánast fjarverandi toppi júnímánuð að hans mati. Sólar hefur ekki notið við í sama mæli í júlí og í júní þegar sólarstundir voru óvenjumargar þó met hafi ekki fallið.

Engu að síður segir Óli að hlýtt hafi verið í veðri víða um land í mánuðinum. Í dag var heitasti dagur ársins á Norður- og Austurlandi og hiti víðsvegar yfir 20 gráðum. Á þremur stöðum mældust 25 gráður: í Ásbyrgi, þar sem hitamet var sumarsins, 25,9 gráður, var slegið, í Fnjóskadal, 25,2 gráður, og á Mánabakka þar sem hiti náði sléttum 25 gráðum.

Sumarlegt.
Sumarlegt. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hitinn færist vestur

Hitinn er á leið vesturyfir, segir Óli. Á morgun megi búast við að hiti fari yfir 20 gráður víða á Vesturlandi, Suðurlandi og sunnanverðum Vestfjörðum. „Við sjáum líklega ekki 25 gráður, en gætum farið langleiðina að þeim,“ segir Óli og bætir við að mestur hiti náist, sem fyrr, inn til landsins. Íbúar Hvanneyrar og Húsafells geti hugsað sér gott til glóðarinnar.

Í Reykjavík nái hiti þó sennilega ekki 20 gráðum, en spáin nú gerir ráð fyrir 16 gráðum seinnipart morgundagsins.

Þrumufíklar verða fyrir vonbrigðum

Mælitæki Veðurstofunnar sem eiga að mæla líkur á eldingum gefa það út að víða viðri vel til þrumuveðurs, hitamunur sé nægilegur og raki í loftinu. „Vandamálið“ sé hins vegar að lítið sé um ský og skúrir sömuleiðis. „Því er hæpið að þrumufíklar fái eitthvað fyrir sinn snúð,“ segir Óli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert