Hitamet sumarsins er fallið ef marka má mælingar Veðurstofu Íslands, en í Ásbyrgi mældist 25,9 stiga hiti upp úr hádegi í dag. Til þessa hafði mesti hiti í sumar mælst þann 12. júní á Skarðsfjöruvita, en þá mældist 25,3 stiga hiti.
Ágætis hiti hefur verið á Norðausturlandi í dag og mældist 24,7 stiga hiti í Bakkagerði á Borgarfirði Eystra og 24,3 stiga hiti á Egilsstaðaflugvelli.
Þá má búast við því að hitinn fari að færa sig Vestur og Suðvestur á morgun. Mjög hlýr loftmassi verður yfir landinu næstu daga.
Áttirnar á landinu í dag eru austlægar og suðlægar og þurrt og bjart að mestu norðanlands, en rigning og súld sunnanlands og einnig vestanlands síðar í dag.
Á morgun lítur út fyrir að hiti fari yfir 20 gráður í flestum landshlutum, en mun svalara verður austantil á landinu og við Húnaflóa þar sem þokubakkar ráða ríkjum.
Talsverður óstöðugleiki verður í loftmassanum yfir suðvestanverðu landinu og aukast þá líkurnar á þrumuveðri með tilheyrandi hellidembum.