203-stjórinn opnar útibú í 101

Ekki er öll vitleysan eins. Þetta er plötuumslagið utan um …
Ekki er öll vitleysan eins. Þetta er plötuumslagið utan um nýja lag Herra Hnetusmjörs. Það er skemmtistaður á leiðinni, 203 í 101. En myndin er tekin á Ítalíu.

„Ég er að opna skemmtistað, 203 baby. Austurstræti 3. Þannig að ég er minna í spa-inu núna,“ segir Herra Hnetusmjör. Tilkynningin kom með óhefðbundnu sniði: Herrann segir þetta í millikafla í nýja laginu sínu, sem kallast Vitleysan eins.

„Þetta er eitthvað alvöru dæmi,“ segir Herra í samtali við mbl.is.

Þetta verður hiphop-bar, með Versace-veggfóðri. „Þetta er svona nýtískuhiphop staður. Ekki þetta bakbokahiphop. Þetta er meira þetta 2 Chainz kjaftæði,“ segir Herra. 

Staðurinn er í hjarta 101 en ber nafn póstnúmers Hnetusmjörsins sjálfs, sem er honum svo kært: 203, Kópavogur. Ætli það sé ekki fáheyrt að öðru leyti, að póstnúmer skuli færa út kvíarnar. 

Barinn skal opinn langt fram á nótt um helgar. Hann verður staðsettur í Austurstræti 3, húsnæði fyrir ofan húsnæði Kebabhússins við Ingólfstorg. Þetta er við hliðina á The Drunk Rabbit.

Að opna bar eins og að gefa út plötu

„Þetta er búið að vera í vinnslu í eitt og hálft ár. Það var mikið sem þurfti að gera,“ segir Herra Hnetusmjör.

Lögð var áhersla á „almennilegt svið,“ sem samkvæmt Herra er mikilvægt fyrirkomulag fyrir „athyglissjúka menn sem mæta á klúbbinn á laugardagsnóttu, heyra lagið sitt og langar að stökkva upp á svið.“ Annað eins hefur komið fyrir.

Nú er unnið að því að afla opinberra leyfa til rekstrarins. Herra segir að stefnan sé sett á að opna núna í lok sumars. „Þetta er eins og þegar maður er að vinna í plötu. Maður vill ekki gefa upp dagsetningu fyrr en hún er tilbúin,“ segir hann.

Það eru vendingar í reykvísku næturlífi um þessar mundir. mbl.is sagði frá því fyrr í dag að Gummi Ben sé, um svipað leyti og þessi áform verða að veruleika, að opna sportbar í Naustinni, þar sem Húrra var áður.

Nýja lagið er annars ekki óvinsælt. Ekki er loku fyrir skotið að Hnetusmjörið skelli sér upp á svið við opnun og tali menn aðeins til inni á eigin skemmtistað, eins og hann er vanur að gera í tónlist sinni. 

View this post on Instagram

🦍=🐐

A post shared by Herra Hnetusmjör (@herrahnetusmjor) on Jul 27, 2019 at 6:36am PDT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert