Fréttu af stefnunni í fjölmiðlum

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Fjármálaeftirlitið

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, telur yfirlýsingar VR um stefnu félagsins fyrir héraðsdómi vera ótímabærar. Segir hún Fjármálaeftirlitinu ekki hafa borist nein stefna og telur óvíst að það gerist. 

„Þetta er nú svolítið sérstakt því okkur hefur ekki verið birt stefnan og við höfum ekki séð málatilbúnað. Þeir segja frá því að þeir hafi sent stefnu í Héraðsdóm Reykjavíkur og óskað eftir flýtimeðferð og það er ábyggilega ástæðan fyrir því að við höfum ekki séð þetta, það á eftir að taka afstöðu til þeirrar beiðni,“ segir Unnur í samtali við mbl.is.

„Ég veit þetta bara úr fjölmiðlum og af því að Ragnar Þór Ingólfsson hefur látið hafa það eftir sér að hann sé að stefna. Þetta er óvenjulegur málatilbúnaður og mjög skrítið að frétta það í fjölmiðlum.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Full­trú­ar VR af­hentu Héraðsdómi Reykja­vík­ur stefnu á hend­ur Fjár­mála­eft­ir­lit­inu í lok síðustu viku, en stjórn VR samþykkti að stefna stofn­un­inni fyr­ir að viður­kenna ekki lög­mæti ákvörðunar full­trúaráðs VR um að aft­ur­kalla umboð stjórn­ar­manna í Líf­eyr­is­sjóði verzl­un­ar­manna.

Telja lög­menn VR að Fjár­mála­eft­ir­litið hafi brotið gegn málsmeðferðarregl­um stjórn­sýslu­laga og jafnframt að forstjóri stofnunarinnar væri vanhæfur til að fjalla um málið eftir að hafa tjáð sig opinberlega um það. 

Unnur segir þær fullyrðingar VR vera einkennilegar. 

„Það er mjög furðulegt því ég hef náttúrulega það hlutverk að taka afstöðu til álitamála þegar eftirlitsskyldir aðilar eiga í hlut, það er bara okkar vinna. Ég held að þetta sé nú bara einhver misskilningur. Það hefur nú gerst í svona málaferlum að alls konar hlutir eru týndir til og þetta hljómar í mínum eyrum bara þannig, ég veit ekki alveg hvernig þetta getur passað,“ segir Unnur. 

Telur að um ótímabærar yfirlýsingar sé að ræða

Aðspurð hvort Fjármálaeftirlitið muni fá tækifæri til að fara yfir stefnu VR á næstu dögum segir Unnur það ólíklegt. 

„Ég býst ekkert frekar við því. Ég veit ekkert hvað gerist, við höfum alla vega ekki séð neina stefnu. Þetta kemur bara í ljós þegar það kemur fyrst í ljós hvort þeir ætli að birta okkur stefnu. Ef þeir fá ekki flýtimeðferð skipta þeir kannski um skoðun með það svo það er aldrei að vita.“

Unnur segist fátt vita um málatilbúnað VR annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum. 

„Þeir eru ósáttir við það að við höfum ekki litið á þá sem aðila málsins. Þeir eru ekki eftirlitsskyldir aðilar. Lífeyrissjóðirnir eru þeir sem við höfum það hlutverk að vakta eins og öll önnur fyrirtæki sem við höfum eftirlit með, vakta að stjórnarhættir séu heilbrigðir og eðlilegir. Okkar skoðun beindist að lífeyrissjóðnum og hvort það væri lögmæt stjórn yfir honum og það er það sem ég heyri að VR er afar ósátt við, að hafa ekki verið aðili að málinu. Við litum þannig á að það væri bara okkar eftirlitsaðili sem væri aðili að þessu máli,“ segir Unnur. 

„Það er ósköp lítið um þetta að segja. Þetta eru svolítið ótímabærar yfirlýsingar frá þeim sem eru áfram á svo miklu frumstigi að maður veit ekki einu sinni hvað verður um þær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert