Bæta við ferðum á föstudag og mánudag

Eldri Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn. Hann mun fara þaðan …
Eldri Herjólfur við bryggju í Landeyjahöfn. Hann mun fara þaðan eina ferð á föstudag og skila þjóðhátíðargestum aftur á fasta landið á mánudagsmorgun. mbl.is/Sigurður Bogi

Tekin hefur verið ákvörðun um að eldri Herjólfur muni sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, samhliða nýju ferjunni, á föstudag og mánudag. Farin verður ein ferð hvorn dag, frá Landeyjahöfn kl. 13 á föstudag og frá Vestmannaeyjum kl. 11:30 á mánudagsmorgun.

Frá þessu er greint á Facebook-síðu Herjólfs. Þar kemur fram að ÍBV muni annast sölu í ferjuna á vefsvæðinu dalurinn.is, en að miðar fyrir farartæki verði seldir á herjolfur.is og símleiðis. Opnað verður fyrir sölu miða í fyrramálið.

„Með þessari ráðstöfun er verið að bregðast við auknum þunga á samgöngukerfið milli lands og Eyja þessa daga,“ segir í tilkynningunni og tekið er fram að þessi þjónustuaukning hefði ekki tekist nema með samstilltu átaki starfsmanna og áhafnar félagsins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert