Útlit er fyrir að þetta sumar verði besta varpár lundans í tíu ára sögu lundarallsins. Þetta kom fram á Facebook-síðu Náttúrustofu Suðurlands. Þá var eftir að heimsækja fjóra athugunarstaði.
Seinni umferð lundarallsins í sumar hófst 15. júlí. Fyrst var farið í Akurey á Kollafirði þar sem ábúð var 79%, varpárangur 85% og viðkoma 67%. Lundar báru sandsíli, seiði og seiði á 1. sumri. Stofnvöxtur sílis leiðir pysjuframleiðsluna og gefur von um að Selvogsbanki fylgi á eftir.
Í Ingólfshöfða var ábúð 70%, varpárangur 74% og viðkoma 51%. Þar hafði orðið mestur viðsnúningur í ábúð frá því í fyrra þegar hún var aðeins 43%. Í Papey var ábúð 77%, varpárangur 88% og viðkoma 68%. Lundar báru mikið smáseiði sem talið var vera sandsíli. Austurland kom nú sterkt inn í fyrsta sinn í sögu lundarallsins. Í Hafnarhólma í Borgarfirði eystra var ábúð 86%, varpárangur 77% og viðkoma 67%. Meira sat þar uppi af lunda en áður hefur sést. Í Lundey á Skjálfanda var ábúð 78%, varpárangur 80% og viðkoma 63%. Allur fuglinn virtist sitja uppi.
Í Grímsey var ábúð 87%, varpárangur 89% og viðkoma 77%. Lundar báru síli og sátu mikið uppi. Í Drangey var ábúð 87%, varpárangur 90% og viðkoma 78%. Mikið var af fugli í eynni. Í Elliðaey á Breiðafirði var ábúð 83%, varpárangur 63% og viðkoma 52%. Lundar báru fjölbreytt fæði í pysjurnar. gudni@mbl.is .