Fjárfestasvikum er beint að Íslendingum á netinu í auknum mæli. Eru boðin hlutabréf í fyrirtækjum í örum vexti, fyrirtækjum sem oftar en ekki eru ekki til. Þegar fólk hefur lagt inn á erlendan reikning er skaðinn oft skeður og féð óafturkræft.
Er talið að á síðustu tólf mánuðum hafi Íslendingar tapað hátt í hálfum milljarði króna með þessum hætti. Málafjöldi vegna fjárfestasvika hefur nú þegar aukist um 77% frá fyrra ári, þótt árið 2019 sé aðeins rétt rúmlega hálfnað, að því er fram kemur í samantekt Landsbankans.
Í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir G. Jökull Gíslason, rannsóknarlögreglumaður hjá embætti ríkislögreglustjóra, að svona svindli sé beint með einbeittum hætti að fólki í viðkvæmri stöðu. Þess séu dæmi að reynt fólk í viðskiptalífinu láti glepjast af gylliboðum og að glöp þau megi rekja beint til nýlegs áfalls í lífi þeirra. Þrjótarnir vita að þá er best að láta til skarar skríða.
Að sögn Landsbankans eru þessi fjárfestasvik orðin algengustu svikin gagnvart einstaklingum hér á landi og svonefndar fyrirmælafalsanir enn þá algengustu svikatilraunirnar gagnvart fyrirtækjum.