Haukadalsvöllur á pari við aðra smávelli

Sigurður Ingi Jónsson, fyrrverandi forseti Flugmálafélagsins.
Sigurður Ingi Jónsson, fyrrverandi forseti Flugmálafélagsins. mbl.is/RAX

Haukadalsflugvöllur er sennilega ekki lakari en aðrir sambærilegir vellir á landinu, segir Sigurður Ingi Jónsson, flugmaður og fyrrverandi forseti Flugmálafélagsins, í samtali við mbl.is, en hann þekkir vel til vallarins. Tvö flugslys hafa með stuttu millibili komið upp á vellinum, hið síðara í fyrradag og var það banaslys.

Sigurður segir viðhaldi á smærri flugvöllum landsins, svokölluðum lendingarstöðum, hafa verið ábótavant um árabil. Margir þeirra eru í umsjá Isavia, en aðrir, svo sem Haukadalsflugvöllur við Heklurætur, eru í höndum flugklúbba. Fyrir einhverjum árum voru lendingarstaðir á vegum Isavia um 150, en Sigurður telur að eftir séu um 40-50. Mörgum þeirra hafi verið lokað þar sem ekki var til peningur til viðhalds.

„Mikilvægasti flugvöllurinn er alltaf sá sem er næst manni, ef eitthvað kemur upp á,“ segir Sigurður og bætir við að því hafi það strokið mönnum andhæris er forstjóri Isavia hélt því fram að fyrirtækið réði alveg við að tapa tveimur milljörðum króna vegna ógreiddra lendingargjalda WOW air meðan ekki væri til peningur fyrir viðhaldi á þessum völlum, sem kosti einhverja hundraðþúsundkalla hver.

Frá slysstað á Haukadalsflugvelli á laugardag.
Frá slysstað á Haukadalsflugvelli á laugardag. mbl.is/Hari

Drög að svokallaðri grænbók um stefnu stjórnvalda í flugrekstrarmálum liggja nú fyrir í samráðsgátt stjórnvalda. Segir Sigurður að þar sé um gott framtak að ræða hjá nafna hans, Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra, og bindur hann miklar vonir við að gangskör verði gerði í málefnum innanlandsflugs.

Auka þurfi fjárframlög til Isavia sem eyrnamerkt eru innanlandsflugi. Það hafi setið á hakanum á sama tíma og þjóðarbúið hafi grætt ríkulega á ferðamennsku, sem ekki væri fyrir að fara ef engir væru flugmennirnir. „Það er nauðsynlegt að framtíð flugs á Íslandi sé tryggð, og að því verkefni þurfa stjórnvöld að koma í samstarfi við flugmenn, flugklúbba og alla þá sem málið varðar.“

Grasrót flugsins, en ekki bara áhugamál dellukarla

Almannaflug nefnist það flug sem ekki er áætlunarflug. Undir það fellur snertiflug, æfingaflug, kennsluflug og almennt einkaflug. Sigurður segir að sumir gefi í skyn að slíkt flug sé bara áhugamál flugdellukarla. Hér sé hins vegar um grasrót flugsins að ræða. Allt flugnám og æfingaflug reyndra flugmanna sem miðla reynslu sinni til yngri flugmanna falli þar undir, og það sé forsenda allrar atvinnuflugmennsku.

Því hrýs Sigurði hugur við þá hugmynd, sem kastað hefur verið fram, að lendingargjöld verði lögð á almannaflug, en þau gjöld greiðast nú aðeins af flutningaflugi. Því líkir Sigurður við að gjald væri tekið af ökunemum fyrir að æfa sig að bakka í stæði. Næg séu gjöldin fyrir og bensínverð hátt, en hann nefnir að einn lítri af flugvélabensíni kosti um 300 krónur. Verðmunurinn á því og bensíni á bíla skýrist þó ekki af sköttum, því þeir eru þvert á móti lægri á flugvélaeldsneyti. Bensín á bíla ber ýmis gjöld, en flugvélabensínið aðeins virðisaukaskatt.

TF-KAR, vél Sigurðar, er 72 ára gömul. „Þetta er eins …
TF-KAR, vél Sigurðar, er 72 ára gömul. „Þetta er eins og þeir segja um hrífuna hans afa sem er áratugagömul en það er búið að skipta um þrisvar um haus og tvisvar um skaft.“ Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert