Siglingar með nýja Herjólfi á milli lands og Eyja hafa gengið ágætlega fyrir sig en skipið siglir nú sjö ferðir á dag samkvæmt áætlun.
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að það muni skýrast fljótlega hvort gamli Herjólfur muni sigla um komandi verslunarmannahelgi ásamt þeim nýja. „Skipinu hafði verið siglt svolítið í hafnirnar áður en við settum það í rekstur, svo nú er því bara siglt eftir áætlun. Við erum að feta okkur áfram,“ sagði hann.
Hann segir að enn hafi ekki verið ákvörðun tekin um að sigla báðum skipunum um næstu helgi. „Við höfum heldur ekki flautað þá ákvörðun af. Við erum bara aðeins að fara yfir stöðuna og þetta ætti að skýrast mjög fljótlega,“ segir hann.