Héraðsdómur Reykjavíkur hefur samþykkt flýtimeðferð í dómsmáli VR gegn Fjármálaeftirlitinu. Gerir VR kröfu um að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þess efnis að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna, verði dæmd ógild.
Þetta kemur fram í tilkynningu VR. Er þar reifuð sú atburðarrás sem átti sér stað í kjölfar fundar fulltrúaráðs VR 20. júní. Var á fundinum ákveðið að afturkalla umboð allra stjórnarmanna sem sitja í umboði VR í stjórn lífeyrissjóðsins. Í kjölfarið tók Fjármálaeftirlitið málið til skoðunar og var ákvörðun FME í málinu sú að þeir stjórnarmenn sem tilkynntir voru til stofnunarinnar þann 23. mars síðastliðin, væru enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins.
„Stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins var haldin verulegum annmarka, bæði að formi og efni til, og er þannig ógildanleg. Má þar meðal annars nefna að Fjármálaeftirlitinu bar að veita VR stöðu aðila í stjórnsýslumálinu en það var ekki gert. Þá sinnti Fjármálaeftirlitið ekki tilkynningarskyldu sinni þar sem VR var ekki tilkynnt að málið væri til meðferðar og ekki heldur um niðurstöðu málsins,“ segir í tilkynningu VR.
„Fullnægjandi rannsókn hefði leitt í ljós að fulltrúaráð VR hefur fengið framselda heimild til þess að skipa stjórnarmenn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna frá stjórn VR. Þá var VR ekki gefinn kostur á að kynna sér gögn máls eða koma að frekari upplýsingum um málsatvik og var þannig brotið gegn andmælarétti VR. Ljóst er að stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins var haldin verulegum annmörkum sem leiða til þess að ógilda beri ákvörðunina,“ segir enn fremur.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að stofnuninni hefði á þeim tímapunkti ekki borist nein stefna.
Þá sagðist Unnur fátt vita um málatilbúnað VR annað en það sem fram hafi komið í fjölmiðlum. Greindi Unnur þó frá þeirri afstöðu Fjármálaeftirlitsins að þar sem VR væri ekki eftirlitsskyldur aðili stofnunarinnar, hefði ekki verið talin ástæða til að hafa félagið aðila að málinu.
„Þeir eru ósáttir við það að við höfum ekki litið á þá sem aðila málsins. Þeir eru ekki eftirlitsskyldir aðilar. Lífeyrissjóðirnir eru þeir sem við höfum það hlutverk að vakta eins og öll önnur fyrirtæki sem við höfum eftirlit með, vakta að stjórnarhættir séu heilbrigðir og eðlilegir. Okkar skoðun beindist að lífeyrissjóðnum og hvort það væri lögmæt stjórn yfir honum og það er það sem ég heyri að VR er afar ósátt við, að hafa ekki verið aðili að málinu. Við litum þannig á að það væri bara okkar eftirlitsaðili sem væri aðili að þessu máli,“ sagði Unnur.