Öll sýni sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur tekið úr ís í ísbúðum í Reykjavík þetta sumarið hafa staðist heilbrigðiskröfur.
Þetta segir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Hann staðfestir að sýnatakan hafi verið í gangi síðan í maí og segir að meirihluti ísbúða hafi nú verið kannaður en um 30 sýni hafa verið tekin úr ísvélum í höfuðborginni.
Óskar segir í Morgunblaðinu í dag, að Heilbrigðiseftirlitið kanni ýmsar tegundir gerla, m.a. iðragerla og coli-gerla. Hann segir að ef íssýni úr ísvél standist ekki kröfur sé henni umsvifalaust lokað en staðfestir að skaðlegir gerlar hafi ekki fundist í ísbúðum í Reykjavík lengi.