Lögreglu barst tilkynning um líkamsárás í Grafarvogi skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Maður sem var að bíða eftir strætó varð fyrir árás og tönn í honum brotin.
Samkvæmt dagbók lögreglu er vitað um gerendur og búið að ræða við þá.
Síðdegis í gær varð umferðaróhapp í Heiðmörk en bílstjórinn, ung kona, var ein í bifreiðinni. Hún var í miklu uppnámi en fann ekki til eymsla.
Hún var flutt til öryggis á slysadeild til aðhlynningar og bíllinn fjarlægður með dráttarbifreið.
Þá kom eldur upp í húsi í Breiðholti rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Slökkvilið var sent á vettvang.
Alls voru 63 mál skráð frá því fimm síðdegis í gær og þangað til fimm í morgun. Þrír voru vistaðir í fangageymslu.