Flest bendir til þess að yfirstandandi júlímánuður verði sá hlýjasti frá því mælingar hófust í Reykjavík. Frá þessu greinir Trausti Jónsson veðurfræðingur á heimasíðu sinni. Meðalhiti í mánuðinum til og með gærdeginum var 13,2 gráður, en fyrra met er 13,03 gráður árið 2010. Útlit er fyrir áframhaldandi hlýindi næstu daga og því ætti meðalhitinn að haldast yfir gamla metinu. Er það tæpum þremur gráðum hlýrra en í júlí í fyrra, og um einni gráðu yfir meðalhita síðustu tíu ára.
Hitatoppar mánaðarins hafa ekki verið sérlega háir, en ástæða hás meðalhita er sú, að sögn Trausta, að hlýtt hefur verið á nóttunni í júlí. „Það hefur verið óvenjulítill munur á nóttu og degi,“ segir Trausti og bætir við að það skýrist af þungskýjuðum nóttum. „Oft þegar heiðskírt er á daginn og hiti mikill þá verða næturnar heiðskírar og kaldar.“
Meðalhiti í júní var til að mynda 10,4 gráður, þótt flestum Reykvíkingum beri sennilega saman um að veðrið hafi verið betra í júní en júlí, og hafa einhverjir gengið svo langt að segja að sumarið hafi toppað þá.
Trausti segir helsta vandamálið við samanburðinn vera það að mælingastöð Veðurstofunnar hefur ekki alltaf staðið á sama stað í borginni. Frá árinu 1973 hefur lofthitinn verið mældur á Veðurstofutúninu, en áður stóð mælirinn á Reykjavíkurflugvelli og þar áður á þaki Landsímahússins sáluga við Austurvöll.
Árið 1936 mældist meðalhiti í júní, þegar mælirinn var þar, einnig 13,2 gráður en sá hiti hefur verið leiðréttur niður á við til samanburðar við nýju mælistöðina. Hitinn á Veðurstofuhæðinni er nefnilega jafnan nokkrum kommum lægri en á þaki Landsímahússins. Því er nú miðað við að hitinn hafi, á Veðurstofuhæð, verið 13,0 gráður að meðaltali í júlí 1936. „Engu að síður myndum við helst vilja komast upp í 13,3 gráður núna svo hitametið væri óumdeilt,“ segir Trausti.