Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Unni Birgisdóttur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi vegna stórfelldra skattalagabrota í tengslum við rekstur fyrirtækisins SS verks ehf. árið 2016. Unni er gert að greiða 106,5 milljónir til íslenska ríkisins.
Umrætt félag var áður í eigu Sigurðar Kristinssonar, sem sjálfur var fyrr á árinu dæmdur í fjögurra og hálfs ára fangelsi fyrir aðild sína að Skáksambandsmálinu svonefnda, sem tengdist kókaínsmygli. Sigurði var sjálfum gert að greiða 137 milljónir vegna málsins.
Ásamt Unni var Armando Luis Rodríguez dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, en hann játaði sök í málinu. Hann var settur stjórnandi félagsins um tíma.
Unnur og Armando voru ákærð nú fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem var innheimtur í rekstri einkahlutafélagsins, SS verks ehf., vegna uppgjörstímabilanna janúar–febrúar, mars–apríl, maí-júní og júlí–ágúst rekstrarárið 2016. Á ákveðnum tímapunkti var Armando skipaður stjórnandi félagsins, en aðeins til málamynda, er sagt í dómnum. Unnur bar mesta ábyrgðina.
Unnur og Armando voru sögð hafa brotið lög um einkahlutafélög með því að hafa í ágúst 2016 „vísvitandi staðið að röngum eða villandi tilkynningum til hlutafélagaskrár um hagi félagsins.“ Þannig hafi verið komist undan því að greiða skatt.
Unnur segist hafa tekið við stjórn félagsins þegar Sigurður tengdasonur hennar bað hana um það í greiðaskyni. Samhliða því hafi hann sagt sig úr stjórn og látið af störfum sem framkvæmdastjóri en í raun áfram verið eiginlegur stjórnandi félagsins. Við mat á trúverðugleika þess framburðar Unnar varð að mati dómsins að líta til þess að hann einkenndist af ósamræmi, enda hafði hún áður gefið gjörólíkar skýringar á aðkomu sinni að félaginu í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra 13. desember 2016 og hjá skiptastjóra 21. ágúst 2017. Hún vissi sem sé hvað hún gjörði, samkvæmt dómnum.
Unnur er móðir Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem er fyrrverandi eiginkona Sigurðar, sem átti félagið á sínum tíma. Unnur sinnti störfum innan félagsins á grundvelli þeirra tengsla.