Rappi kippt úr spilun í morgunútvarpi

Kjartan Lauritzen framleiðir rapptónlist í léttum dúr en í þetta …
Kjartan Lauritzen framleiðir rapptónlist í léttum dúr en í þetta skipti þótti einum manni hann fara gersamlega yfir strikið. Og lagið hans var tekið úr spilun í morgunútvarpinu. Mynd úr myndbandinu við Fredag. Skjáskot/YouTube

Hálfíslenskur og hálfnorskur rappari, þó fyrst og fremst norskur, Kjartan Lauritzen, lenti í því í morgun að lag hans var tekið úr spilun í morgunútvarpi norska ríkisútvarpsins í Hörðalandi. Það var gert í kjölfar kvartana eldri kristinfræðilektors, sem sendi NRK pistil í héraðsblaðinu Bergens Tidende.

„Hvernig atvikast það að lag með eins dónalegum texta, þar sem blót, fyllerí og kynlíf leika aðalhlutverk, fái spilun?“ spyr Gunnar Johnstad, háskólalektor í kristnifræði. „Hver er ábyrgur fyrir því að Fredag var sett á spilunarlistan 12. júlí? Var umræða um þetta? Hver voru rökin með og á móti?“

Umrætt lag er Fredag, eins og Johnstad talar um, Föstudagur, og það var spilað á föstudegi í tilefni bæjarhátíðar sem var í uppsiglingu. Johnstad taldi þetta fullkomlega ótækt. Og útvarpið brást við: „Við drögum lærdóm af þessu,“ klykkir útvarpsstjóri út með í bréfi sem hann svaraði Johnstad með. „Við sjáum nú að við hefðum átt að athuga textann áður en við settum lagið í morgunútvarpið.

Kjartan heitir í raun og veru Per Áki Sigurdsson Kvikne. Hann á íslenska móður, Maríu. Kjartan hefur ferðast nokkuð um Ísland um ævina ásamt foreldrum sínum og hann og bróðir hans, sem vel að merkja er umboðsmaður hans, kunna sitthvað í móðurmáli sínu, þó ekki sé það alveg óbjöguð íslenska sem þeir tala. Hann er þó sagður hafa fundið listamanninn innra með sér, Kjartan sjálfan, á ferðalagi um Ísland þrettán ára. Hann er fæddur 1995.

Í laginu umdeilda syngur hann um ákveðna tilfinningu sem hann fær í klofið á fimmtudagsmorgni, við tilhugsunina um morgundaginn, föstudag. Þetta fannst kristinfræðilektornum fara yfir strikið fyrir hlustendur morgunútvarpsins, sem kynnu að vera börn og unglingar.

Svona, til vinstri, heldur Gunnar Johnstad, kristnifræðikennarinn, að Kjartan Lauritzen …
Svona, til vinstri, heldur Gunnar Johnstad, kristnifræðikennarinn, að Kjartan Lauritzen sé, og svona, til hægri, er Kjartan Lauritzen í raun og veru. Instagram/Samsett mynd

„Fyrstu viðbrögðin mín voru bara þau að þetta væri frekar fyndið. Einhver gamall gaur að segja að textarnir mínir væru of grófir fyrir hann. En þegar til þess kom að útvarpið sagðist ekki ætla að spila lagið aftur og báðust afsökunar á að hafa gert það, þá fékk ég hálfgert sjokk. Ætti ég þá ekki að geta hringt og sagt þeim að spila ekki kristilega sálma? Það væri fáránlegt,“ segir Kjartan í viðtali við norska blaðið VG um málið. 

Kjartan segist hafa fengið „sjúklega“ mikið af skilaboðum vegna málsins þar sem fólk tekur hans málstað. VG tekur útvarpsstjórann einnig tali og hann dregur nokkuð úr fyrri yfirlýsingu vegna málsins. Hann segir að útvarpið komi ekki til með að spila lagið áfram í morgunútvarpinu, vegna efnistaka og áferðar í þeim tiltekna þætti, en það sé síður en svo útilokað að henda því í gang síðdegis á föstudegi, þegar fólk er að keyra inn í helgina.  „Það er ekki nákvæmt að tala um ritskoðun, heldur er vel hægt að vanda valið þegar kemur að því að spila lög í útvarpinu. Mér líkar persónulega mjög vel við Kjartan Lauritzen,“ segir útvarpsstjórinn.

Kjartan hitti ekki beint í mark hjá kristinfræðikennaranum þegar hann …
Kjartan hitti ekki beint í mark hjá kristinfræðikennaranum þegar hann söng um sérstaka tilfinningu í klofinu sem hann fengi þegar hann hugsaði til föstudagsins sem væri í vændum. Skjáskot/YouTube
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert