„Yndislegt að vinna með Tarantino“

María Birta á setti. Þessari mynd deildi opinber vefsíða myndarinnar, …
María Birta á setti. Þessari mynd deildi opinber vefsíða myndarinnar, og María gat því sett á Facebook. Hún mátti sjálf engar myndir taka. Ljósmynd/Once Upon a Time in Hollywood

Leikkonunni Maríu Birtu Bjarnadóttur bregður fyrir í nýrri kvikmynd leikstjórans Quentin Tarantino, Once Upon a Time in Hollywood. María fer með hlutverk Playboy-kanínu í senu sem tekin er upp á Playboy-setrinu í Los Angeles.

María hefur enn ekki séð myndina, en segir í samtali við mbl.is að hún búist við að vera á skjánum í um tvær skeúndur. Að baki er þó mun meiri vinna en tökur á senunni stóðu yfir í tvo daga. María segir hlutverkið þýðingarmikið, fyrst og fremst því það opni fleiri dyr. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí en hún fer í sýningar á Íslandi í næsta mánuði.

Vel fylgst með mittinu

María fékk græna kortið, atvinnuleyfi í Bandaríkjunum, í ágúst, og mánuði síðar var hlutverkið hennar. „Þegar ég sótti um vissi ég ekki að Tarantio væri leikstjórinn,“ segir hún og bætir við að myndin hafi gengið undir öðru vinnuheiti, eins og oft sé raunin með bandarískar stórmyndir.

Hún hafi skömmu síðar fengið svar og verið beðin að senda inn bikinímynd af sér, svo hægt væri að dæma hvort hún væri hæf í hlutverkið. „Síðan fæ ég símtal nokkrum mánuðum síðar og er beðin að mæta í viðtal með nokkurra tíma fyrirvara,“ segir María og bætir við að konan, sem sér um ráðningarnar, hafi spurt hvort mittið hennar sé ekki örugglega í sömu stærð og það var þegar myndin var tekin.

María Birta ásamt Ella Egilssyni, eiginmanni sínum.
María Birta ásamt Ella Egilssyni, eiginmanni sínum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Leikstjórinn Quentin Tarantino hefur verið mikið á milli tannanna á fólki undanfarin misseri, en ýmsar leikkonur hafa stigið fram og sagt Tarantino hafa komið illa fram við sig á setti, þeirra á meðal Uma Thurman sem lenti í bílslysi við tökur á kvikmyndinni Kill Bill árið 2003. María hefur þó gott eitt um Tarantino að segja. „Mér finnst hann frábær og hann kom yndislega fram við alla.“ 

Hún fékk stutt kynni af leikstjóranum við tökurnar. „Ég var búin að vera að dansa í svona átta klukkutíma þegar við tökum pásu og ég tylli mér á stein og fer úr skónum til að kæla á mér tærnar,“ segir María. Þegar hún sér leikstjórann nálgast drífur hún sig í skóna svo hún sé nú tilbúin í næstu senu. „Hann stoppar bara við hliðina á mér og heilsar,“ segir hún og bætir við að ekkert hafi legið á að drífa sig aftur í skóna.

Á settinu kynntist María einnig leikkonunni Margot Robbie, sem fer með eitt aðalhlutverk myndarinnar. Robbie hafi sagt Maríu að hún dauðöfundaði hana af hlutverkinu sem Playboy-kanína, því hún hafi alltaf viljað klæðast búningnum. „Ég spurði hana hvort við ættum ekki bara að skipta,“ segir María og hlær.

Til hamingju, Heba

Íslenski förðunarfræðingurinn Heba Þórisdóttir er aðalförðunarfræðingur bíómyndarinnar (e. head make-up artist). María segist vilja nýta tækifærið og óska henni hjartanlega til hamingju með hennar starf við myndina. María hitti Hebu við tökur, en þá höfðu fjölmargir komið að látið þær báðar vita að annar Íslendingur væri á svæðinu, eins og gjarnan vill vera þegar Íslendingar bregða sér út fyrir landsteinana. Sú fiskisaga hafði raunar farið á kreik að þær Heba væru frænkur, ef ekki systur. Allir Íslendingar séu jú skyldir.

Fjölmörg járn eru í eldinum hjá Maríu um þessar mundir en fæst sem hún má segja frá, þar sem hún er bundin þagnarskyldu. Þegar blaðamaður nær tali af Maríu er hún stödd í Skotlandi við sýningar á sirkusverkinu Atomic Saloon en hún er samningsbundin því verki næsta árið og heldur brátt til Las Vegas þar sem sýningum verður framhaldið. María fer með hlutverk glímukappa í sýningunni, en hún hefur æft glímu í um eitt ár.

„Síðan eru allar dyr opnar. Það mun örugglega glitta í mig í helmingnum af stóru sjónvarpsþáttunum þarna úti á næstu misserum,“ segir María. Hún hafi tekið þátt í ótrúlegustu verkefnum síðasta hálfa árið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert