„Staðan er sú að það er nú farið að slá virkilega á þetta miðað við það sem var hérna í nótt og við erum farnir að sjá svona aðeins fyrir endann á þessu en það verður náttúrulega starf í gangi hérna fram eftir öllum degi.“
Þetta segir Guðmundur Karl Halldórsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og vettvangsstjóri, í samtali við mbl.is vegna eldsvoðans í atvinnuhúsnæðinu að Fornubúðum 3 í Hafnarfirði sem kom upp í nótt.
Spurður hvenær gera megi ráð fyrir að hægt verði að fara inn í húsnæðið og skoða aðstæður segir Guðmundur Karl að það verði ekki strax. Helmingur hússins virðist í lagi að sögn Guðmundar en mikil vinna sé eftir.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að lokað sé fyrir umferð í Fornubúðir frá Flensborgartorgi og þá er einnig lokað á Óseyrarbraut, á milli Fornubúða og Stapagötu, auk Cuxhavengötu.
Rafmagnstruflanir eru á svæðinu og er fólk beðið um að sýna þolinmæði. Þá segir að hagstæð vindátt sé í Hafnarfirði þessa stundina og því leggi reykinn ekki yfir byggðina. Ef fólk finni reykjarlykt í húsum sínum er því bent á að loka gluggum og hækka í ofnum.