Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna og fyrrverandi umhverfisráðherra, er einn þeirra sextán einstaklinga sem ætla að safna áheitum fyrir Samtök um endómetríósu í Reykjavíkurmaraþoninu 24. ágúst næstkomandi.
Sjálf greindist Þórunn með kvensjúkdóminn endómetríósu fyrir nokkrum árum en vinkona hennar, Elsa Guðmundsdóttir, lést fyrr á árinu eftir að hafa glímt við sjúkdóminn í marga áratugi. Í minningu hennar ætlar Þórunn að hlaupa, eða að hennar sögn „arka“, tíu kílómetra í hlaupinu.
Þórunn segir að verja þurfi mun meiri fjármunum í rannsóknir á endómetríósu, sem hrjáir um 10% kvenna í heiminum.
„Hann leggst misjafnlega á konur en þær sem þjást af verstu útgáfu sjúkdómsins eru hryllilega þjáðar og búa við mjög skert lífsgæði,“ segir Þórunn. Oft taki langan tíma að greina sjúkdóminn. „Það er eins og heilbrigðisstarfsmenn séu ekki alltaf með hann inni í myndinni þegar konur leita sér aðstoðar,“ segir hún.
Sjá samtal við Þórunni í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.