Tugir tonna af erlendum lambahryggjum eru á leið til landsins og gætu mögulega komið í búðir í næstu viku.
Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), í Morgunblaðinu í dag.
Kjötið var pantað í kjölfar tillögu ráðgjafanefndar til ráðherra.
Andrés sagði við Morgunblaðið að þegar ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lagði til við ráðherra að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum og hryggjarsneiðum hafi fyrirtæki innan SVÞ pantað þessar vörur frá erlendum birgjum.
„Þær vörur eru á leiðinni vegna þess að það hefur aldrei gerst í sögu ráðgjafanefndarinnar að ákvörðun hennar hafi verið afturkölluð,“ sagði Andrés. Hann sagði að samkvæmt búvörulögum gegni nefndin sjálfstæðu hlutverki. Hlutverk ráðherrans sé eingöngu að ganga úr skugga um að nefndin hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni.
„Við höfum ekki nokkra ástæðu til að ætla annað en að nefndin hafi gegnt sínu hlutverki og í því ljósi töldum við ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækin færu að búa sig undir innflutning á þessari vöru,“ sagði Andrés.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur óskað eftir því að ráðgjafanefndin endurmeti hvort þörf sé á því að opna tollkvóta á lambahryggjum í ljósi nýrra upplýsinga sem nefndinni bárust frá framleiðendum.
Nefndinni ber að skila niðurstöðu í þessari viku. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í gær. Andrés sagði að þessi ákvörðun ráðherrans komi SVÞ í opna skjöldu. „Þegar ráðgjafanefndin var að undirbúa málið eftir síðasta erindi frá okkur hafði hún samband við alla aðila til að kanna birgðastöðu, lögum samkvæmt,“ sagði Andrés.
„Nefndin fékk þær upplýsingar að það væri skortur á lambahryggjum hjá að minnsta kosti tveimur birgjum. Lögin segja að það þurfi að vera skortur hjá minnst tveimur birgjum til að opnir tollkvótar verði heimilaðir. Það var gefinn fjögurra virkra daga frestur á þriðjudag í síðustu viku til að gera athugasemdir við þetta. Fresturinn rann út á mánudag. Samkvæmt upplýsingum sem við höfum voru engar athugasemdir komnar áður en fresturinn rann út. Við höfum upplýsingar um að ein afurðastöð, Kaupfélag Skagfirðinga (KS), hafi keypt lambahryggi frá Fjallalambi á Kópaskeri og sent inn nýja tilkynningu á mánudag. Á grundvelli þess telji ráðherra sér skylt að biðja nefndina að endurmeta stöðuna.“