Íhuga að flytja inn lambahryggi vegna skorts

Ferskar kjötvörur dótturfélag Haga er með það til skoðunar að …
Ferskar kjötvörur dótturfélag Haga er með það til skoðunar að flytja inn lambahryggi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum ekki sjálfir að flytja inn en Ferskar kjötvörur eru að skoða innflutning á lambahryggjum. En engin ákvörðun hefur verið tekin ennþá,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdarstjóri Bónus, í samtali við mbl.is.

Ferskar kjötvörur er líkt og Bónus dótturfélag Haga og sér matvörukeðjum Haga fyrir kjötvörum. Finnur Árnason, forstjóri Haga, staðfestir að þetta sé til skoðunar í samtali við mbl.is.

Hryggir ekki verið til síðan í vor

„Við [Bónus] höfum ekki átt heila lambahryggi síðan í apríl. Við áttum hálfa hryggi fram í lok maí en höfum ekkert átt síðan. Við höfum átt nóg af kótelettum en hryggirnir sem slíkir hafa ekki verið til hjá okkur síðan í vor,“ segir Guðmundur.

Sama staða er uppi á teningunum hjá Hagkaupum, öðru dótturfélagi Haga, þar sem lítið hefur verið til af lambahryggjum og hverfandi er til af kótelettum samkvæmt Gunnari Inga Sigurðssyni, framkvæmdarstjóra Hagkaupa. Þá hefur verið greint frá því að Krónan hefur ekki getað keypt íslenskt lambakjöt heldur og hafi verið að huga að innflutningi.

Skortur eða ekki?

Deilt er nú um hvort slíkur skortur á lambahryggjum sé nú á landinu að það réttlæti innflutning. Framkvæmdarstjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), Andrés Magnússon, sagði í samtali við Morgunblaðið að tugir tonna af lambahryggjum væru á leið til landsins.

Voru þeir pantaðir eftir að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lagði til við ráðherra að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tolli til að bregðast við skorti. Áður en ráðherra samþykkti það bárust nýjar upplýsingar og sendi hann því málið aftur til ráðgjafanefndar til endurskoðunar.

Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra sagði í samtali við mbl.is að enginn skortur væri til staðar og það væri í raun verið að sparka löppunum undan sauðfjárbændum með því að opna fyrir innflutning á lambahryggjum.

Útflutningurinn er alvarlegastur

Guðmundur segir að skorturinn hafi verið fyrirsjáanlegur síðan í vor þegar sláturleyfishafar hækkuðu verð vegna fyrirhugaðs skorts. Hann skilur ekki af hverju það sé ekki löngu byrjað að slátra.

„En það sem er alvarlegast í þessu er, ef rétt er, að sláturleyfishafar séu að flytja út lambakjöt á verðum sem að íslenskum neytendum standa aldrei til boða,“ segir hann og bætir við:

„Samkvæmt Hagstofunni er búið að flytja út töluvert magn af hryggjum á verðum sem okkur hefur aldrei staðið til boða. Manni sárnar og það svíður því þetta er jú ríkisstyrkt og við erum að niðurgreiða þetta með sköttunum okkar.“

Hann spyr sig af hverju það sé í lagi að senda lambakjöt til útlanda á lægra verði en íslenskum neytendum stendur til boða. „Af hverju mega íslenskir neytendur ekki njóta þess að það sé mikið til?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert