Kristín kom frá Færeyjum fyrir 74 árum

Maren Kristín Þorsteinsson var kát og glöð í afmælinu í …
Maren Kristín Þorsteinsson var kát og glöð í afmælinu í gær. Ljósmynd/Aðsend

Maren Kristín Þorsteinsson, daglega kölluð Kristín, hélt upp á 100 ára afmælið sitt í gær. Hún fæddist 30. júlí 1919 á Sandi í Sandey í Færeyjum. Faðir hennar var Harald Johan Jensen og móðir hennar Marin Margretha Petersen Jensen, kölluð Greta.

Langlífi er í ættinni og náði móðir Kristínar 98 ára aldri, föðurbróðir hennar varð 100 ára, amma hennar varð 94 ára og systir Kristínar er orðin 92 ára, að því er fram kom á Facebook-síðunni Langlífi.

Kristín kom til Íslands árið 1945 til að vinna á Vífilsstöðum þegar berklarnir geisuðu á Íslandi. Hún hafði þá starfað á sjúkrahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum. Síðar vann hún á Kleppsspítala og starfaði svo lengi á Landspítalanum.

Hún giftist Kjartani Þorsteinssyni leigubílstjóra árið 1948. Hann lést árið 1970. Þau bjuggu lengi við Miklubraut í Reykjavík. Dóttir þeirra er Gréta og ber hún nafn móðurömmu sinnar.

Aðeins einn annar Íslendingur fæddur í Færeyjum hafði áður náð 100 ára aldri og það gerðist árið 2003, að því er fram kemurí samtali við Maren Kristínu í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert