Húsnæði IP-dreifingar í Fornubúðum 3 í Hafnarfirði var um 250 fermetrar og þar voru 3 starfsmenn í vinnu. Þar er altjón og ekkert er heilt. Tjónið hleypur á tugum milljóna króna og lamar algerlega rekstur fyrirtækisins.
Fyrirtækið sér um dreifingu og vinnslu þess afla sem útgerð í eigu sömu fjölskyldu kemur með á land. Nú er því aðeins IP-útgerð starfandi, en IP-dreifing í lamasessi. „Þetta er altjón, það er á hreinu. Ég var að hitta tryggingamennina núna og ef við ætlum að halda áfram starfsemi eru næstu skref bara að finna nýtt húsnæði,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi í útgerðinni og dreifingarfyrirtækinu.
Gunnar segir að eldurinn geti ekki hafa átt sér upptök í bilinu í enda hússins þar sem IP-dreifing var. Hann segir að fyrir liggi að eldurinn hafi átt sér upptök í nærliggjandi húsnæði, nefnilega matvinnslufyrirtækisins IC Core. Þeir eru með mun umfangsmeiri starfsemi í húsinu, 1.250 fermetra húsnæði.
Hjá IP-dreifingu voru einhverjar birgðir af ýmsum matvælum. Hrefnukjöt, súr hvalur og hákarl, meðal annars. Svo voru það framleiðslutækin, kælibúnaður, tölvur og almenn tæki og tól. Allt er brunnið til grunna. Engar vélar voru í gangi á næturnar, sem rennir stoðum undir þá staðhæfingu að bruninn hafi ekki átt sér upptök þar inni: hann varð klukkan þrjú í nótt.
Enn logar í glæðum í Fornubúðum 3 en slökkviliðsmenn hafa fulla stjórn á eldinum. Verið er að fjarlægja brak og annað rusl svo slöngurnar drífi í eldinn. Gríðarlegt vatnsmagn var á svæðinu, um hríð voru fjórar slöngur í gangi sem hver dælir um 4.500 lítrum á mínútu, allar í gangi í einu klukkustundum saman.