Vilja ekki skoða EES-samninginn nánar

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Hvernig getur það farið saman að þeir sem stuðst hafa við orð Baudenbachers um Orkupakka 3, og notað þau til marks um mikilvægi þess að hann verði samþykktur, bregðast ókvæða við þegar bent er á að skoða þurfi nánar EES-samninginn sem liggur til grundvallar?“

Þetta segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, á vefsíðu sinni í dag. Vísar hann þar til álitsgerðar sem Carl Baudenbachers, fyrrverandi forseti EFTA-dómstolsins, vann fyrir utanríkisráðuneytið vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins hér á landi í gegnum aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES).

Bendir Elliði á að þingmenn og ráðherrar hafi látið mikið með álit Baudenbachers, sem telur Íslendingum ekki annað fært vegna EES-samningsins en að samþykkja þriðja orkupakkann, á þeim forsendum að hann væri sérstakur sérfræðingur þegar kæmi að samningnum.

„Það sem mér hefur helst þótt athyglisvert er að þessi álitsgerð er langt því frá það eina sem þessi kappi hefur sagt um alþjóðasamninga Íslands. Árið 2007 sagði þessi sami sérfræðingur nefnilega að EES-samningurinn (sá sem liggur til grundvallar Orkupakka 3) sé yfirþjóðlegur samningur og brjóti því gegn stjórnarskrá Íslands,“ segir hann ennfremur.

Rifjar Elliði upp frétt í Fréttablaðinu frá árinu 2007 þar sem haft er eftir Baudenbacher að EES-samningurinn sé yfirþjóðlegur samningur sem fyrir vikið fari í bága við stjórnarskrá lýðveldisins. Hvort sem samningurinn hafi verið yfirþjóðlegur eða ekki í upphafi þá sé ljóst að sú sé raunin í dag. Vitnað er þar í grein sem Baudenbacher ritaði í Tímarit lögfræðinga.

Elliði lýkur pistli sínum á eftirfarandi spurningu: „Hlustar maður bara á mann þegar maður er sammála manni?“ Hann hefur áður sett spurningamerki við EES-samninginn og meðal annars bent á að samningurinn sé í raun aðlögunarsamningur að Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka