„Áhlaup frá versluninni“ á íslenska framleiðslu

Halla Signý segir að innflutningur á lambahryggjum sé aðför að …
Halla Signý segir að innflutningur á lambahryggjum sé aðför að íslenskri sauðfjárrækt. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir því að atvinnuveganefnd Alþingis komi saman og óski eftir gögnum frá ráðgjafanefnd inn- og útflutnings landbúnaðarvara til að hægt sé að taka afstöðu til tillögu nefndarinnar um að heimila innflutning á lambahryggjum á lækkuðum tollum vegna skorts. Hún segir um „meintan skort“ sé að ræða.

Erfitt að fá aðgang að gögnum

„Ég hef verið að kalla eftir þeim gögnum sem nefndin byggir þessa niðurstöðu á. Það hefur verið erfitt að fá þau og ég tel að það skipti máli að fara yfir þetta því í lögunum þá segir að það þurfi að vera skortur sem verður tilfallandi jafnvel í þrjá mánuði,“ segir Halla í samtali við mbl.is.

„Það má kalla þetta meintan skort því það er ekki skortur. Það hefur komið í ljós,“ bætir hún við.

50 tonn á leiðinni til landsins

Komið hefur fram í fjölmiðlum að 50 tonn af lambahryggjum hafi verið pantaðir og séu á leiðinni til landsins. Hrygg­irn­ir voru pantaðir eft­ir að ráðgjafa­nefnd um inn- og út­flutn­ing land­búnaðar­vara lagði til við land­búnaðarráðherra að gef­inn yrði út tíma­bund­inn inn­flutn­ingskvóti á lækkuðum toll­um til að bregðast við skorti á inn­lend­um lambahryggj­um.

Áður en ráðherra samþykkti þá til­lögu bár­ust nýj­ar upp­lýs­ing­ar þess efn­is að það væri í raun og veru ekki skort­ur á lambahryggj­um hér á landi og skil­yrði fyr­ir inn­flutn­ingi á lækkuðum toll­um því ekki upp­fyllt. Ráðherra óskaði því eft­ir við ráðgjafa­nefnd­ina að hún end­ur­mæti hvort raun­veru­leg þörf væri á að flytja inn lambahryggi. Niðurstaðan á að liggja fyr­ir í þess­ari viku.

Hægt að lækka toll ef gögnin reynast rétt

„Nú erum við að tala um að það séu tvær til þrjár vikur í slátrun þegar þetta kemur í ljós. Ég kalla þetta áhlaup frá versluninni á íslenska framleiðslu því þeir eru að flytja inn 55 tonn sem er gríðarlega mikið magn. Þetta er jafnvel upp undir 7% af þeim hryggjum sem eru framleiddir hér á landi,“ útskýrir Halla.

Hún segir sjálfsagt mál að lækka tollkvótann ef gögnin sem ráðgjafanefndin notast við séu rétt en bætir því við að nú séu komnar fram upplýsingar um að enginn skortur sé. Hún segist sjálf hafa verslað lambahrygg í Bónus í síðustu viku. „Birgjar vilja meina að það séu til hryggir í landinu og það þarf að fara yfir þau gögn.“

Sárt fyrir íslenska neytendur

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdarstjóri Bónuss, sagði í gær að skorturinn hafi verið fyrirsjáanlegur síðan í vor þegar sláturleyfishafar hækkuðu verð vegna fyrirhugaðs skorts. Hann sagði það þó alvarlegast hversu mikið hefði verið flutt út af hryggjum á verðum sem íslenskum neytendum standa aldrei til boða.

„Manni sár og það svíður því þetta er jú ríkisstyrk og við erum að niðurgreiða þetta með sköttunum okkar,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Útflutningur á undirverði 

Spurð hvort að sláturleyfishafar geti sjálfum sér um kennt vegna stöðunnar sem nú sé kominn upp segir Halla að sauðfjárræktun sé ekki þannig að það sé hægt að hlaupa til og slátra hvenær sem. En sláturleyfishafar þurfi samt sem áður að svara fyrir þennan útflutning.

„Það má alveg segja það að sláturleyfishafar verði að svara fyrir það. Þeir voru að flytja út hryggi í haust á undirverði sem er ekki nógu gott og má kannski segja að það hafi verið upptakturinn í þessu,“ segir hún en bætir við:

„En það er ekki orðinn skortur í landinu á hryggjum.“

Hún hefur ekki fengið nein viðbrögð við fundarbeiðninni enn sem komið er og ekkert hefur verið ákveðið með framhaldið. Þá hefur hún ekki rætt við Lilju Rafney Magnúsdóttur, þingmann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og formann atvinnuveganefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert