Byrjaðir að steypa Hús íslenskunnar

Um þessar mundir eru „8-10 karlar“ við störf á svæðinu. …
Um þessar mundir eru „8-10 karlar“ við störf á svæðinu. Í haust ættu starfsmenn að vera um 30 á svæðinu öllu jöfnu. Framkvæmdin er flókin. Ljósmynd/Árnastofnun

Menn eru byrjaðir að steypa í holu íslenskra fræða! Hús íslenskunnar mun rísa, verklok eru áætluð 2022, opnun 2023. Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar er mjög glöð.

„Þetta verður bylting. Ekki aðeins fyrir okkur hjá Árnastofnun og háskólanum, heldur Íslendinga alla,“ segir hún við mbl.is. 

Það dróst mjög að hefja framkvæmdir á reitnum við Suðurgötuna. Fyrsta skóflustungan var tekin 2013. Svo gerðist lítið. Ístak verktakar tóku við framkvæmdinni eftir að hafa boðið lægst í útboði í febrúar á þessu ári.

Þorvaldur Guðjónsson, sem stýrir framkvæmdum við húsið fyrir hönd Ístaks, segir menn í starthoulunm. „Við erum komnir í grunninn,“ segir hann. „Byrjaðir að steypa.“ Steypulögin sem sjást á myndinni eru afréttingarlög svonefnd, sem lögð eru fyrst allra. 

Afréttingarlög svonefnd hafa verið lögð í grunninn. Á þeim grunni …
Afréttingarlög svonefnd hafa verið lögð í grunninn. Á þeim grunni verður byggt áfram næstu þrjú ár. Ljósmynd/Árnastofnun

Svo er mikið verk framundan. „Þetta er tiltölulega flókið í uppsteypu enda sporöskjulaga. Svo eru mörg skemmtileg útfærsluatriði varðandi geymsluna. Þarna verða náttúrulega geymd handrit og það er sérbúnaður í kringum það, svo sem sérstök loftræsting og slökkvikerfi,“ segir Þorvaldur.

Húsið verður reist á klöppinni á botni holunnar, ólíkt sumum öðrum byggingum á háskólasvæðinu, sem reistar hafa verið í Vatnsmýrinni. Þar er grundunin ólík og meiri hætta á að byggingar sígi. Þorvaldur segir að eftir verslunarmannahelgi hefjist framkvæmdirnar af meiri þunga og þá ættu að vera hátt í 30 manns starfandi við bygginguna næstu þrjú ár. Í bili eru þetta svona 8-10 karlar, segir hann.

Hús íslenskunnar eins og það mun rísa árið 2022. Næstu …
Hús íslenskunnar eins og það mun rísa árið 2022. Næstu ár verður unnið sumar og vetur. Ljósmynd/Árnastofnun

Guðrún fagnar því að framkvæmdirnar séu hafnar fyrir alvöru. „Þetta er mjög mikilvægt. Þetta er flókið hús en það mun algerlega breyta möguleikum okkar bæði til að sinna fræðslustörfum og til að miðla handritunum,“ segir hún.

Hús íslenskunnar verður í senn safn, þar sem handritin verða til sýnis og annað þeim skylt, kennsluhúsnæði fyrir íslenskudeild, höfuðstöðvar Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og móttökuaðstaða fyrir gesti sem koma til að skoða sýningar, fræðast og stunda rannsóknir.

Húsið rís í miðju safnahverfi, til vesturs er Landsbókasafn, suðvesturs nýtt aðsetur Hins íslenzka bókmenntafélags í Bændahöllinni, og til austurs Þjóðminjasafnið og suðurs háskólasvæðið allt. „Þarna myndast skemmtileg heild safna,“ er Guðrún viss um.

Þegar holan var lón, árið 2016. Hún stóð lengi tóm.
Þegar holan var lón, árið 2016. Hún stóð lengi tóm. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert