Fellst á niðurstöðu siðanefndar

Forsætisnefndin sem fjallaði um málið var skipuð þeim Stein­unni Þóru …
Forsætisnefndin sem fjallaði um málið var skipuð þeim Stein­unni Þóru Árnadótt­ur þing­manni Vinstri grænna og Har­aldi Bene­dikts­syni þing­manni Sjálfstæðis­flokks­ins. mbl.is/Árni Sæberg

Forsætisnefnd Alþingis fellst á niðurstöðu ráðgefandi siðanefndar þingsins varðandi framgöngu sex þingmanna á Klaustur bar í nóvember á síðasta ári.

Þetta kemur fram í áliti forsætisnefndar sem skipuð var þeim Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - grænu framboði sem birt hefur verið á vef Alþingis. Þannig segir í niðurstöðum álits forsætisnefndar:

„Það er því niðurstaða forsætisnefndar að hátterni Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar 20. nóvember 2018 hafi farið gegn c-og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Það er jafnframt niðurstaða forsætisnefndar að Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi ekki sýnt hátterni 20. nóvember 2018 sem fari gegn siðareglum fyrir alþingismenn.“

Málinu teljist þar með lokið af hálfu forsætisnefndar. Fram kemur í álitinu meðal annars að umræddir þingmenn hafi ítrekað fengið tækifæri til þess að koma athugasemdum á framfæri á undanförnum mánuðum á meðan málið hafi verið í ferli og er því þannig vísað á bug að þeim hafi ekki verið veitt eðlileg tækifæri til þess.

Hvað varðar gagnrýni á að stuðst hafi verið við frásagnir fjölmiðla af málinu segir í álitinu: „Ljóst er að í málinu liggur fyrir víðtæk umfjöllun fjölmiðla umhátternisem átti sér stað á veitingastofunni Klaustri 20. nóvember 2018. Um er að ræða hátterni þingmanna sem hefur verið á almannavitorði síðan í lok nóvember.“

Hafa verði einnig í huga í því sambandi að þingmennirnir hefðu við meðferð málsins fengið tækifæri til þess að tjá sig um grundvöll þess eins og hann hefði verið lagður fyrir hvern og einn þeirra auk þess sem þeir hefðu á öllum stigum málsins haft rétt til þess að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka