„Við höfum ákveðið að flýta lambaslátrun hjá sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga og mun hún hefjast 9. ágúst,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðasviðs Kaupfélags Skagfirðinga, í samtali við mbl.is.
„Það stóð til að við myndum hefja slátrun á Hvammstanga 15. ágúst en við höfum náð að flýta því um viku. Það liggur ekki alveg fyrir ennþá hversu mikið magn en ætlunin er að slátra tíu til tólf þúsund dilkum fram að hefðbundinni sláturtíð,“ bætir hann við.
Kjötið ætti því að vera komið í verslanir strax mánudaginn 12. ágúst.
„Þetta er gert til þess að mæta þörfum markaðarins en mikil sala hefur verið á lambakjöti í sumar vegna einstaklega góðrar grilltíðar. Á undanförnum árum hefur SKVH hafið forslátrun um miðjan ágúst og slátrað fyrir Ameríkumarkað en nú mun þetta kjöt allt fara á innlendan markað,“ segir Ágúst og bætir við:
„Þetta er háð því að bændur séu tilbúnir nú eins og áður að útvega lömb til slátrunar.“
Morgunblaðið greindi frá því í gær að tugir á innfluttum lambahryggjum væru á leiðinni til landsins og gætu verið komnir í verslanir í næstu viku. Hryggirnir voru pantaðir til landsins eftir að ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara lagði til við landbúnaðarráðherra að gefinn yrði út tímabundinn innflutningskvóti á lækkuðum tollum til að bregðast við skorti á innlendum lambahryggjum.
Áður en ráðherra samþykkti þá tillögu bárust nýjar upplýsingar þess efnis að það væri í raun og veru ekki skortur á lambahryggjum hér á landi og skilyrði fyrir innflutningi á lækkuðum tollum því ekki uppfyllt. Ráðherra óskaði því eftir við ráðgjafanefndina að hún endurmæti hvort raunveruleg þörf væri á að flytja inn lambahryggi. Niðurstaðan á að liggja fyrir í þessari viku.