Fundur hófst í forsætisnefnd klukkan tíu vegna Klaustursmálsins svo nefnda. Bráðabirgðaforsætisnefndin er skipuð þeim Steinunni Þóru Árnadóttur þingmanni Vinstri grænna og Haraldi Benediktssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins.
Greint hefur verið frá því að nefndin hafi komist að niðurstöðu um afstöðu sína í málinu, sem byggi á niðurstöðu siðanefndar og athugasemdum frá hlutaðeigandi, en að fundurinn í dag sé ætlaður til að gagna frá málinu formlega.
Morgunblaðið greindi í dag frá áliti siðanefndar, sem blaðið hefur undir höndum. Er niðurstaða siðanefndar að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hafi gerst brotlegir við siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á Klaustri bar 20. nóvember. Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum alþingismanna.