Glæsihótel á Geysi opnað í dag

Hótelið fellur vel inn í umhverfið, bæði hvað varðar arkitektúr …
Hótelið fellur vel inn í umhverfið, bæði hvað varðar arkitektúr og litaval. mbl.is/​Hari

Tekið verður á móti fyrstu gestunum í nýbyggingum Hótels Geysis í Haukadal í dag, 1. ágúst. Alls eru 77 herbergi á hótelinu, öll vel búin þægindum, 29-90 fermetrar að flatarmáli. Eru herbergin í annarri tveggja meginálma bygginganna nýju sem eru um 9.400 fermetrar að flatarmáli.

Mábil Másdóttir hótelstjóri, Sigríður Vilhjálms-dóttir hótelstjóri, Elín Svafa Thoroddsen og …
Mábil Másdóttir hótelstjóri, Sigríður Vilhjálms-dóttir hótelstjóri, Elín Svafa Thoroddsen og Sigríður Alma Mábilardóttir. mbl.is/​Hari

Í hinni álmunni eru gestamóttaka, eldhús og veitingasalir sem að hluta eru byggðir utan um eldri byggingar. Útveggir byggingar íþróttaskólans, sem lengi var starfrækur í Haukadal, eru eins konar sviðsmynd þegar gengið er á jarðhæð inn í veitingasalina, þar sem eru sæti fyrir um 450 manns.

Vel fyrir öllu séð

„Uppbygging þessi hefur verið langt en skemmtlegt ferli og gaman að sjá þessar glæsilegu byggingar reistar,“ segir Mábil Másdóttir hótelstjóri. Móðir hennar, Sigríður Vilhjálmsdóttir, ekkja Más Sigurðssonar, er eigandi hótelsins en með henni starfa Mábil og Sigurður bróðir hennar. Einnig koma að málum Elín Svafa Thoroddsen, eiginkona Sigurðar, og Sigríður Alma, dóttir Mábilar. Má því segja að þetta sé dæmigert fjölskyldufyrirtæki, með reyndar tugum starfsmanna annars staðar frá, og segir Elín þau Geysisfólk hafa verið sérlega heppin með mannskap.

Útveggir gamla íþróttaskólans eru nú inni í móttöku veitingasala hótelsins.
Útveggir gamla íþróttaskólans eru nú inni í móttöku veitingasala hótelsins. mbl.is/​Hari

Um fjögur ár eru síðan framkvæmdirnar á Geysi hófust. Byggingarnar, sem Brynhildur Sólveigardóttir er arkitekt að, eru beint fyrir neðan hverasvæðið og var þess því sérstaklega gætt að þær féllu vel inn í umhverfið. Viðarklæðning á útveggjum gefur skemmtilegan svip og litir falla vel að landi.

Innan dyra er sömuleiðis allt mjög fagurlega útbúið og eftirtektarvert, samkvæmt hugmyndahönnun Leifs Weldings sem hefur komið að mörgum sambærilegum verkefnum. Þar má nefna að veggir eru lagðir íslensku grjóti og timbri. Herbergin eru þá björt og rúmgóð. Svíturnar eru sex; þar af fimm 60 fermetrar að stærð, með bjartri stofu, svefnberbergi, snyrtingu og góðum útsýnissvölum.

Bjarki Hilmarsson matreiðslumeistari hótelsins til áratuga,
Bjarki Hilmarsson matreiðslumeistari hótelsins til áratuga, mbl.is/​Hari

Þá er vel fyrir öllu séð í veitingahúsi og eldhúsi, sem tekið var í gagnið fyrir nokkrum misserum. Þar er allur búnaður sérvalinn af Bjarka Hilmarssyni, sem hefur verið matreiðslumeistari á Hótel Geysi í um aldarfjórðung.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert