Hafa lokið sinni vinnu

Bráðabirgðafor­sæt­is­nefnd­in er skipuð þeim Stein­unni Þóru Árna­dótt­ur þing­manni Vinstri grænna …
Bráðabirgðafor­sæt­is­nefnd­in er skipuð þeim Stein­unni Þóru Árna­dótt­ur þing­manni Vinstri grænna og Har­aldi Bene­dikts­syni þing­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum í rauninni lokið okkar vinnu. Málið er nú eins og við höfum klárað það í prófarkalestri. Að því loknu verður niðurstaðan tilkynnt hlutaðeigandi þingmönnum og síðan sett á heimasíðu Alþingis og verður þar með orðin opinber.“

Þetta segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, sem ásamt Haraldi Benediktssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, hefur skipað bráðabirgðaforsætisnefnd sem hefur fjallað um það hvort framganga sex þingmanna á Klaustri bar í Reykjavík í nóvember á síðasta ári hafi farið gegn siðareglum þingsins.

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að ráðgefandi siðanefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að tveir af þingmönnunum, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson sem sitja á þingi fyrir Miðflokkinn, hafi með framgöngu sinni brotið gegn siðareglunum.

Spurð um niðurstöðu þeirra Haraldar segir Steinunn að þau muni ekki tjá sig efnislega um niðurstöðuna. „Við tjáum okkur ekkert um hina efnislegu niðurstöðu fyrr enda er þetta vinnulag í samræmi við málsmeðferðarreglurnar.“ Haraldur tekur undir þetta.

Spurður hvort endurskoða þurfi siðareglur þingmanna í ljósi þessa máls segir Haraldur að hann vilji spara yfirlýsingar um það alla vega næstu klukkutímana. En hann hafi vissulega myndað sér skoðun á því í ljósi þessarar reynslu. Það sé hins vegar ótímabært að fjalla um það. Þetta mál verði fyrst að fá sína eðlilegu framgöngu.

Steinunn tekur í svipaðan streng: „Við vinnum þetta mál auðvitað bara í samræmi við gildandi siðareglur. En siðareglur eru auðvitað eitthvað sem þarf alltaf að vera til umræðu og til endurskoðunar. Þetta er bara partur af umræðu sem er alltaf í gangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka