Meðalhiti júlímánaðar í Reykjavík var 13,4 stig, og er mánuðurinn hlýjasti einstaki mánuður frá því mælingar hófust. Frá þessu greinir Trausti Jónsson veðurfræðingur í færslu á vefsíðu sinni. Fyrra met var slegið árið 2010 þegar 13,0 gráða meðalhiti mældist í borginni.
Um sólarhringsmeðaltal er að ræða, en í samtali við mbl.is í síðustu viku, þegar útséð þótti að metið félli, sagði Trausti að hár meðalhiti þennan mánuð skýrðist af óvenjulitlum mun á milli dags og nætur. Þungskýjað hefur verið í borginni um hríð og verða nætur þá hlýrri en ella.
Veðrið hefur einnig verið stöðugt í mánuðinum, en háum hitatoppum ekki fyrir að fara. Þannig er meðalhiti í mánuðinum þremur gráðum hærri en í júní, en hæsti hiti sumarsins mældist engu að síður 14. júní, 21,1 gráður samanborið við 20,2 gráður í júlí. Að sama skapi mældist var lægsti hiti í júní 1,2 gráður, en 5,8 í júlí. Tölurnar eru úr mannaðri mælistöðinni á Veðurstofuhæðinni, en rétt er að geta þess að tölur júlímánaðar eru óyfirfarnar.
Trausti segir fyrstu daga mánaðarins hafa verið kalda, en síðan hafi komið óvenjulangur kafli um daginn þar sem hiti fór ekki niður fyrir tíu gráður. Þótti það sæta tíðindum í upphafi mánaðar þegar hiti fór ekki undir 17 gráður í heilan sólarhring, sem Trausti segir þó ekki met. Metið yfir hæsta lágmarkshita sólarhrings í Reykjavík sé rúmar 18 gráður.