Tvö tilboð bárust í smíði nýrrar brúar yfir Brunná í Skaftárhreppi, en tilboð voru opnuð á þriðjudaginn. Léttist brúnin á forráðamönnum Vegagerðarinnar en áður höfðu engin tilboð borist í smíða þriggja brúa á hringvegi.
Með fjölgun erlenda ferðamanna á þjóðvegum landsins hefur slysahætta aukist við einbreiðar brýr á hringveginum. Ákveðið var að gera átak í að leggja af einbreiðar og hættulegar brýr og byggja í þeirra stað tvíbreiðar brýr.
Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni er heildarfjöldi brúa á þeim þjóðvegum sem teljast til stofn- og tengivega 892. Af þessum brúm teljast 423 einbreiðar, þ.e. fimm metrar að breidd eða mjórri.
Í sumar auglýsti Vegagerðin eftir tilboðum í smíði þriggja brúa á hringveginum en ekkert tilboð barst í þau verk. Í fyrsta lagi var um að ræða brú yfir Kvíá í Öræfum. Í öðru lagi óskaði Vegagerðin eftir tilboðum í smíði nýrra brúa yfir Steinavötn og Fellsá ásamt uppbyggingu á tveimur köflum beggja vegna brúa. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ætlunin að bjóða brúagerð yfir Kvía, Steinavötn og Fellsá út að nýju í haust.
Sem fyrr segir bárust Vegagerðinni tvö tilboð í smíði nýrrar brúar á Brunná í Skaftárhreppi. Ístak hf. bauðst til að vinna verkið fyrir rúmar 203 milljónir og Aflsmíði og Múr ehf. og Eldrún ehf. buðu 131 milljón. Var það 25% yfir áætluðum verktakakostnaði, sem var 104,7 milljónir króna.