Minnihlutinn telji um brot að ræða

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Hari

Minnihluti ráðgefandi siðanefndar Alþingis er í raun þeirrar skoðunar að tveir þingmenn Miðflokksins hafi gerst sekir um brot gegn siðareglum þingmanna. Þetta segir Bergþór Ólason, sem ásamt Gunnari Braga Sveinssyni er umræddur þingmaður, í athugasemdum sínum til bráðabirgðaforsætisnefndar Alþingis vegna málsins.

Vísar Bergþór þar til þess að einn af þremur fulltrúum í siðanefndinni, Jón Kristjánsson fyrrverandi þingmaður og ráðherra, hafi sagt sig frá afgreiðslu málsins vegna vanhæfis og annar, Róbert Haraldsson heimspekiprófessor, hafi lýst því yfir í áliti minnihluta siðanefndar frá 25. mars að til staðar væru verulegar efasemdir um að hátternið sem málið snerist um félli undir gildissvið siðareglnanna eins og það væri orðað.

„Eftir stendur einn fulltrúi í siðanefnd, Margrét Vala Kristjánsdóttir, sem virðist telja að ummælin falli bæði undir gildissvið siðareglna alþingismanna og feli í sér brot á þeim sömu siðareglum. Allt bendir þetta til þess að aðeins einn af þremur siðanefndarmönnum í nefndinni eins og hún er nú skipuð, telji hægt að komast að þeirri niðurstöðu að málið heyri undir siðareglur Alþingis og að um brot á þeim hafi verið að ræða.“

Byggt á frásögnum fjölmiðla

Bergþór segir að af þeirri ástæðu einni væri að hans mati eðlilegt að málinu væri vísað frá. Hann gagnrýnir enn fremur meðferð málsins. Meðal annars að þingmönnunum hafi ekki verið boðið að senda inn andmæli á meðan málið hefði verið til umfjöllunar hjá siðanefndinni heldur aðeins eftir að hún hefði skilað niðurstöðu sinni. Það væri þvert á það sem komið hefði fram í bréfi forsætisnefndar 28. júní.

Enn fremur er gagnrýnt að siðanefndin hafi byggt niðurstöðu sína á frásögn fjölmiðla af framgöngu þingmannanna tveggja og fjögurra annarra, sem siðanefndin komst að niðurstöðu um að hefðu ekki brotið siðareglurnar, á Klaustri bar í lok nóvember eftir að fyrir lá að ekki væri hægt að byggja á upptöku sem gerð var af Báru Halldórsdóttur og Persónuvernd hefur síðan úrskurðað ólögmæta.

„Engum hlutaðeigandi kom til hugar að málið yrði raunverulega rekið áfram á grundvelli frétta í vefútgáfum Stundarinnar, DV og Kvennablaðsins, sem allir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum vita að fara nærri því að hatast við Miðflokkinn og þingmenn hans. Það þarf ekki annað en að segja við sjálfan sig upphátt að slíkt sé ætlanin, til að átta sig á hversu galin sú hugmynd er,“ segir Bregþór enn fremur.

Skammaður af móður sinni

Bergþór segir um ummæli sem hann lét falla að hann hafi beðið Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, fyrirgefningar á ummælum um hana, ummæli um Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, hafi verið slitin úr samhengi og ummæli um Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra verið í stríðnistóni. Ummæli um Albertínu F. Elíasdóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, standi hann við enda hafi hann þar verið að ræða um kynferðislega áreitni sem hann hefði orðið fyrir af hennar hálfu.

„Sjálfur tók ég við þeim skömmum sem ég tek mest mark á vegna málsins frá móður minni fyrir tæpum 8 mánuðum síðan. Sú opinbera smánunarherferð sem keyrð hefur verið áfram er refsing sem er margfalt verri fyrir þá sem í lenda, en hinar hefðbundnu refsingar sem siðuð samfélög telja forsvaranlegar. Það eru ekki bara stjórnmálamennirnir sjálfir sem verða fyrir, heldur fjölskyldan og nærumhverfið. Ég vil því enda þessar athugasemdir mínar á að segja, aðgát skal höfð í nærveru sálar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka