IC Core, matvinnslufyrirtæki sem var með starfsemi að Fornubúðum 3 í Hafnarfirði í húsnæði sem brann í gærnótt, var ekki með tryggingar fyrir tjóninu, samkvæmt RÚV. Tjónið hleypur líklega á tugum ef ekki hundruðum milljóna.
Inni í húsnæðinu voru dýr matvinnslutæki og allt sem var inni er gerónýtt. Samkvæmt Viktoríu Gísladóttur, fjármálastjóra IC Core sem mbl.is ræddi við í kvöld, var enginn staddur í húsnæðinu þegar bruninn varð. Þó liggur fyrir að hann átti upptök í húsnæði þeirra, en tvö önnur fyrirtæki höfðu starfsemi í húsinu.
„Þetta er mikið áfall fyrir okkur,“ segir Viktoría. Hún segir að nú fari tíminn í það að ræða málin við starfsmenn fyrirtækisins og að halda utan um þá, enda sé þeim illa brugðið eins og nærri má geta. Það voru að jafnaði 10 starfsmenn í vinnu hjá fyrirtækinu.
„Það er ekkert vitað með framhaldið,“ segir Viktoría. Of snemmt sé að álykta hvort fyrirtækið haldi áfram starfsemi annars staðar eða ekki. Ljóst er að tjónið er mikið.
Viktoría gat ekki staðfest við mbl.is að fyrirtækið hefði ekki verið tryggt fyrir tjóninu. Verið væri að fara yfir tryggingamál.
Engan sakaði í brunanum, sem hófst klukkan 3 aðfaranótt miðvikudags. Lögreglan afhenti í morgun tryggingafélögum vettvang og munu þau hafa kannað aðstæður þar í dag. Það verður áfram gert næstu daga. Tvö önnur fyrirtæki höfðu rými í húsinu á leigu, IP-dreifing með 250 fermetra skika sem allur brann, og Fiskmarkaður Suðurnesja sem slapp mjög vel frá tjóni miðað við aðstæður.
Engar kenningar eru enn uppi um hvað nákvæmlega olli eldi inni í húsnæði IC Core. Þar fór fram fiskvinnsla ýmis og þar inni voru matvinnsluvélar, plastker og matur þegar bruninn varð. Allt varð það að engu í brunanum. Eigandi hússins sagði í samtali við mbl.is í gærmorgun að ljóst væri að tjónið hlypi á hundruðum milljóna króna.