Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir verðlækkanir á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar munu styrkja grundvöll lífskjarsamninganna. Samið var um hóflegar krónutöluhækkanir og vegur verðbólga og vaxtastig þungt í samningunum.
Verðbólgan mældist 3,6% í maí en hefur lækkað í 3,1%. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að styrking krónu er talin skapa skilyrði fyrir frekari lækkun verðbólgunnar.
Vegna niðursveiflunnar og mögulegs samdráttar í hagkerfinu er ekki útlit fyrir að svonefndur hagvaxtarauki greiðist út í ár. Kveðið var á um það nýmæli í samningunum.
Hins vegar styður minni verðbólga við eitt meginmarkmið samninganna sem er að stuðla að lægri vöxtum. Frá undirritun samninga í apríl hefur Seðlabankinn lækkað vexti í tvígang.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, segir að ef verðbólga helst í kringum verðbólgumarkmið, og verðbólguvæntingar einnig, væri „illskiljanlegt ef Seðlabankinn myndi ekki lækka áfram vexti“.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir samningunum verða sagt upp á næsta ári ef fyrirtækin skila ekki styrkingu krónu til neytenda. Þá sé krafa um frekari vaxtalækkanir í haust.