Árið 2018 var leitað til Stígamóta vegna 705 kynferðisbrota, þar af voru tíu vegna nauðgunar eða nauðgunartilrauna sem áttu sér stað á útihátíðum.
Kynferðisbrot hafa sett svartan blett á útihátíðir en mótshaldarar, gestir og almenningur hafa lagt sitt á vogarskálarnar til að sporna gegn öllu ofbeldi, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi efni í Morgunblaðinu í dag.
„Það er eðlilegt að unglingar á útihátíðum sem eru eftirlitslausir yfir nótt vilji prófa mörkin sín þegar tækifæri skapast og prófa ýmislegt sem fullorðnir gera. Kynlíf er eitt af því sem ungt fólk hugsar mikið um og á að gera ef íslensk þjóð á að eiga einhverja framtíð,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sem bætir við að fólk verði að geta treyst hvert öðru.
Hún segir að löngum hafi fræðsla og forvarnir beinst að því að kenna stúlkum sem fara á útihátíðir hvað þær eigi að gera til að láta ekki beita sig ofbeldi. Þannig sé hlutunum snúið á haus í stað þess að tala við pilta um það hvernig þeir geti passað sig og tileinkað sér tillitsemi og virðingu í samskiptum, segir Guðrún sem bætir við að áfallateymi eigi að vera á öllum útihátíðum og tryggt að allir viti af þeim.