Tveir brutu siðareglur

Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, …
Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Ólafur Ísleifsson. mbl.is/​Hari

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson brutu siðareglur alþingismanna með ummælum sínum á Klaustri 20. nóvember. Kemur þetta fram í áliti siðanefndar sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Forsætisnefnd fundar um málið í dag. Þingmennirnir gagnrýna harðlega vinnubrögð og niðurstöðu siðanefndar í bréfum til forsætisnefndar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Bergþór og Gunnar brutu siðareglur

Í áliti siðanefndar, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er það niðurstaðan að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hafi gerst brotlegir við siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á Klaustri bar 20. nóvember. Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum alþingismanna.

Bergþór og Gunnar Bragi þóttu með ummælum sínum hafa brotið gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna alþingismanna, en þar segir m.a. að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar „leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu“. Segir einnig í reglunum að þingmenn skuli ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni.

„Öll af sömu rótinni sprottin“

Siðanefnd fjallaði sérstaklega um ummæli Önnu, Bergþórs, Gunnars og Sigmundar. Í umfjöllun um ummæli Bergþórs, sem m.a. fóru í hámæli eftir að Klaustursupptökurnar svokölluðu voru gerðar heyrinkunnar, voru tiltekin ummæli hans um Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur alþingismann og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Í umfjöllun um ummæli Gunnars Braga tiltók siðanefnd sérstaklega ummæli hans um Albertínu Friðbjörgu alþingismann, um Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra og um Ragnheiði Runólfsdóttur, afrekskonu í sundi.

Sagði siðanefndin um ummæli flokksbræðranna: „Eins og áður greinir getur hátterni sem telst ósiðlegt eða óviðeigandi af hálfu þingsins kastað rýrð á Alþingi og skaðað ímynd þess. Þar undir getur fallið ósæmileg framkoma eða vanvirðing er lýtur að kynferði, kynþætti eða trúarbrögðum. Siðanefnd telur ekki þörf á að greina hvert og eitt atriði í ummælum [Bergþórs og Gunnars]. Þau eru öll af sömu rótinni sprottin. Þau eru ósæmileg og í þeim felst vanvirðing er lýtur að kynferði þeirra kvenna sem um er rætt. Siðanefnd telur þau einnig til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess, auk þess sem þau sýna Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu.“

Ummæli flokksbræðranna um Albertínu alþingismann voru af svipuðum meiði, þ.e. að hún hefði áreitt þá kynferðislega.

Í bréfum sem þingmennirnir sendu forsætisnefnd, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, vegna umfjöllunar siðanefndar, segir Bergþór um ummæli þau sem hann lét falla um Albertínu að hann hafi síðan hvorki dregið orð sín til baka, né beðist afsökunar á þeim sérstaklega, enda hafi þarna verið „í engu orðum aukið það sem átti sér stað og í raun alveg galin staða að vera útmálaður í hlutverki geranda í þessu máli, þegar raunin er þveröfug“. Skrifar hann enn fremur: „Þarna er ég að lýsa erfiðri reynslu sem ég varð fyrir í einkasamtali á meðal vina. Ég er að lýsa því þegar núverandi þingkona gekk svo nærri mér kynferðislega að ég var lengi að átta mig á því hvað hafði gerst. Og ég má ekki tala um það í einkasamtölum!“

Eru athugasemdir Gunnars Braga um ummæli hans um þingkonuna á sömu leið. „Allt það sem þar er sagt stend ég við en vil þó taka fram, líkt og ég gerði við viðkomandi, að notkun á orðinu „nauðgun“ var of gróft og var hún beðin afsökunar á þeirri orða notkun,“ skrifar hann.

Aðrir ekki brotlegir

Ummæli Sigmundar Davíðs og Önnu Kolbrúnar voru einnig tekin til skoðunar. Voru þar sérstaklega athuguð ummæli Önnu Kolbrúnar þegar hún uppnefndi Freyju Haraldsdóttur stjórnmálakonu. Segir Anna Kolbrún í bréfi til forsætisnefndar að uppnefni séu oft viðhöfð um stjórnmálamenn og í umræddu tilviki hafi uppnefnið ekki falið í sér illmælgi.

Taldi siðanefnd að uppnefnið yrði ekki réttlætt með skýringum um að uppnefni hefðu oft verið viðhöfð um stjórnmálamenn og í þeim kynni að felast einhver broddur án þess að litið yrði á þau sem illmælgi. Þótti siðanefndinni að ummæli Önnu gætu skaðað ímynd Alþingis en erfitt væri að slá því föstu. „Í ljósi afmörkunar forsætisnefndar og hversu takmarkaðar upplýsingar liggja til grundvallar þessum ummælum telur siðanefnd rétt að Anna Kolbrún Árnadóttir njóti vafans að þessu leyti,“ sagði í álitinu.

Þá taldi siðanefndin ekki að ummæli Sigmundar Davíðs, sem voru viðhöfð í tengslum við fullyrðingar annarra viðstaddra, hefðu brotið gegn siðareglum.

Gerir Sigmundur í bréfi sínu til forsætisnefndar ekki athugasemd við niðurstöðu siðanefndar að þessu leyti.

Þurftu ekki að aðhafast

Að auki við umfjöllun um ummæli þingmannanna fjögurra tók siðanefndin einnig til umfjöllunar hvort allir viðstöddu, þ.e. fjórir ofannefndu auk Karls Gauta og Ólafs Ísleifssonar, hefðu brotið gegn siðareglum með því að sitja athugasemdalaust undir ummælum annarra þingmanna, ekki sýnt fordæmi og frumkvæði að því að styðja siðareglurnar í verki. Sagði siðanefndin að ekki væri unnt að fullyrða að siðareglurnar geri þær kröfur til þingmanna að þeir aðhafist með þeim hætti sem lýst er í afmörkun forsætisnefndar, og töldust því þingmennirnir sex ekki hafa brotið gegn siðareglunum með þessum hætti.

Ólafur og Karl Gauti sendu forsætisnefnd ekki bréf með athugasemdum við álit siðanefndar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka