Unnið er að viðgerð á ytra byrði Akureyrarkirkju þessa dagana. Er verið að lagfæra hana eftir skemmdarverk sem unnið var í ársbyrjun 2017. Þá var krotað víða á útveggina með úðamálningu. Ómögulegt reyndist að má ummerkin að öllu leyti af kirkjunni.
Að sögn Ólafs Rúnars Ólafssonar, formanns sóknarnefndar, verður heildarkostnaður við viðgerðina líklega um 20 milljónir króna. Styrkir fengust úr jöfnunarsjóði sókna og frá húsafriðunarsjóði.
Ólafur segir framkvæmdina hafa gengið afar vel síðustu daga og að iðnaðarmenn hafi staðið vaktina í blíðskaparveðri. Einhver litamunur muni verða á ytra byrði kirkjunnar eftir þetta fyrsta stig framkvæmda, en nú sé hið minnsta búið að afmá skemmdirnar af kirkjunni og múra yfir þau svæði þar sem þær voru enn sýnilegar að einhverju leyti í múrhúðinni.