Ákærðir fyrir meiri háttar skattsvik

Húsnæði héraðssaksóknara.
Húsnæði héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur

Héraðssaksóknari hefur birt ákæru á hendur bræðrunum Haraldi Reyni Jónssyni og Guðmundi Steinari Jónssyni, sem kenndir eru við útgerðarfélagið Sjólaskip, vegna meiri háttar brota gegn skattalögum. Þeir eru sakaðir um að hafa vanframtalið rúma þrjá milljarða króna á árunum 2006 og 2007. Vangreiddur tekjuskattur er sagður tæpar 819 milljónir króna.

Um er að ræða sameiginlegt mál gegn þeim bræðrum. Þess er krafist að þeir verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Í aðskildu máli er Guðmundur Steinar ákærður fyrir meiri háttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2007, 2008 og 2009 með því að telja ekki fram á skattframtölum sínum þau gjaldár tekjur upp á tæpar 412 milljónir króna. Af tekjunum hefði hann átt að greiða rúmar 65 milljónir króna í skatt.

Þess er krafist að hann verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar

Ákæra á hendur Haraldi Reyni einum og sér hefur áður verið birt. Honum er gert að sök að hafa van­talið tekj­ur ár­anna 2005-2008 og nema meint und­an­skot rúm­um 245 millj­ón­um króna.

Ákærur gegnum systrum Guðmundar og Haraldar hafa einnig verið birtar. Þær eru sakaðar um að hafa ekki talið fram fjármagnstekjur upp á samtals rúmlega 550 milljónir króna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert