Stofnunum á borð við Seðlabankann er jafnan ekki heimilt að veita upplýsingar um fjárhagsleg málefni viðskiptamanna eða starfsmanna. Þetta segir í tilkynningu frá Seðlabankanum, sem send var mbl.is.
Seðlabankinn hefur stefnt Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, til að fá fram frestun réttaráhrifa eftir að úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði að bankanum bæri að veita Ara upplýsingar um námssamning sem gerður var við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, þáverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans veturinn 2016-17. Ingibjörg hélt til Bandaríkjanna í nám og fékk til þess styrk frá bankanum, og mögulega laun samtímis, en sneri ekki aftur til starfa að námi loknu.
Tekið er fram að stefnan gegn blaðamanni beinist ekki að honum sem slíkum. Hann hafi, að mati Stefáns Jóhanns Stefánssonar ritstjóra, sem skrifar undir tilkynninguna, unnið verk sitt vel og samviskusamlega í þessum efnum. Formið krefjist þess að honum sé birt stefna persónulega þótt ýmsum kynni að finnast það óþægilegt. Bankinn reyni að milda honum leiðina eins og kostur er, til dæmis með því að krefjast ekki greiðslu málskostnaðar þótt málið vinnist.
Ber bankinn fyrir sig ákvæði um þagnarskyldu í lögum um Seðlabankann. „Verði stofnunum á að veita of miklar upplýsingar geta þær átt hættu að brjóta lög og baka sér bótaskyldu,“ segir í tilkynningunni. Það sé því ekki af neinni leyndarhyggju sem Seðlabankinn veiti ekki umbúðalaust allar umbeðnar upplýsingar.
Rétt er þó að ítreka að úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur þegar úrskurðað að bankanum beri að veita upplýsingarnar, og ætti lagaheimild til þess því að liggja fyrir. Bankinn áfrýjar úrskurðinum til dómstóla, að sögn, til að fá „skýra og ótvíræða niðurstöðu í mál sem mismunandi skilningur er um“.
Seðlabankinn sé undir lög settur og þyrfti að breyta þeim ætti bankinn að geta veitt umbeðnar upplýsingar.