Brotlegir þingmenn fari í leyfi

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, segir nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulagi siðanefndar Alþingis. Niðurstaða nefndarinnar í Klaustursmálinu sé ekki boðleg. Þetta kemur fram í færslu sem Jóhanna birtir á Facebook.

Jóhanna segir ótækt að fyrrverandi eða núverandi þingmenn skipi siðanefnd og leggur þess í stað til að Alþingi skipi í nefndina í upphafi hvers kjörtímabils sérfræðinga utan Alþingis.

Þá sé nauðsynlegt að brot á siðareglum þingsins hafi afleiðingar fyrir viðkomandi þingmenn. Mætti hugsa sér að þingmaður, sem gerist brotlegur við reglurnar, verði sendur í launalaust leyfi í tiltekinn tíma sem eftir lifir kjörtímabils. Það væri liður í að endurreisa virðingu Alþingis.

Auk siðareglna þingsins hafa ríkisstjórnir sett sér siðareglur, að fordæmi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem var sú fyrsta sem setti sér slíkar, árið 2011. Þess má  geta að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar staðfesti aldrei þær reglur, og fann umboðsmaður Alþingis að því þótt Sigmundur segði að hann liti svo á að siðareglur fyrrum ríkisstjórnar væru enn í gildi, að því er fram kom í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu árið 2016. Eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Sigurðar Inga Jóhannssonar vorið 2016 var að staðfesta slíkar reglur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka