Ragnhildur Þrastardóttir
Þúsundir launafólks, sem ekki hafa gengið frá kjarasamningum, fengu í gær 105.000 króna innágreiðslu vegna tafa á frágangi samninga. Fjöldinn allur af fólki sat þó eftir, þar á meðal drjúgur hluti félagsmanna Starfsgreinasambandsins.
„Þetta eru ekki tapaðar fjárhæðir, þær koma einfaldlega seinna. Við vildum auðvitað að greiðslur til okkar félagsmanna yrðu á sama tíma og til annarra en þessi peningur er ekki tapaður.
Þegar við klárum samninginn þá kemur þessi peningur,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins. „Auðvitað eru menn fúlir yfir því að fá ekki peninginn og mönnum finnst þeim auðvitað vera mismunað og það eru kannski engin haldbær rök fyrir því hvers vegna það er gert,“ segir Björn um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.